Strax eftir hádegismat gærdagsins fóru krakkarnir í rútu sem ferjaði allan hópinn í skautahöllina, en íþróttatími dagsins fór þar fram.
Íþróttatíminn stóð yfir í rúma klukkustund og skemmtu allir sér vel, nemendur jafnt sem starfsfólk. Allir nemendur tóku virkan þátt á svellinu og sýndu flott tilþrif, sérstaklega þeir reynslumeiri, en þó voru nokkrir reynslulitlir sem gáfu þeim reynslumeiri alls ekkert eftir!
Í dag kvöddum við jólin í enn eitt skiptið og vorum við með brennu í tilefni þess. Strax eftir hina hefðbundnu gæðastund var förinni heitið yfir í Skjaldargarð þar sem brennan fer alla jafna fram og gæðastundin þá framlengd, nema núna utandyra 🙂
Eftir brennuna fóru allir inn í matsal og fengu sér snemmbúin morgunverð sem var auk þess aðeins lengri en vanalega. Í þetta skiptið var boðið upp á ristað brauð með osti og marmelaði og heitt kakó, ásamt þessum hefðbundna morgunverði.
Starfsmenn Hlíðarskóla vona að jólin og áramótin hafi verið þér og þínum ánægjuleg, og vonandi ber árið 2023 margt gott í skauti sér!
Núna er desember genginn í garð og flestir annað hvort komnir (eða alveg að komast) í jólaskap.
Miðvikudagurinn 30. nóvember var með óhefðbundnu sniði. Dagurinn hófst með gæðastund í kennslustofunum eins og vanalega og í kjölfarið byrjaði svokölluð Gong-lestrarstund. Þá fer starfsmaður skólans og spilar ljúfa tóna á Gong sem markar þá upphaf þessarar óvenjulegu lestrarstundar, en þá mega nemendur vera hvar sem er og hvernig sem er innan veggja skólans og lesa í 15 mínútur.
Strax eftir morgunmat tóku allir nemendur skólans sig til og skáru pizza deig í ræmur, fylltu ræmurnar með kanil og vöfðu þær síðan utan um prik, og væru ræmurnar loks grillaðar í eldstæðinu vestan við hús.
Eftir frímínútur fóru nemendur í þá valtíma sem þeir völdu sér vikunni áður, en eftir hádegismat var komið að hápunkti dagsins. Skólinn fylltist þá af mömmum, pöbbum, öfum, ömmum, frændum og frænkum sem áttu góða stund með börnunum við alls kyns jólaföndur. Boðið var upp á að skreyta piparkökur, búa til jólatrés-skraut, smíða sér snjókalla, föndra jólakort og föndrað jólasveina á þvottaklemmur!
Krakkarnir fóru svo með vinum og vandamönnum heim, sátt eftir vel heppnaðan dag!
Í öðrum fréttum er það helst að það hófst eldgos í Skjaldarvík! Aðeins var um vísindaverkefni yngsta stigs að ræða og entust umrædd eldgos ekki nema í stutta stund og sluppu allir ómeiddir frá þeim. Það má með sanni segja að eldgosin (og eldfjöllin sem að yngstu strákarnir unnu hörðum höndum við að búa til), hafi slegið rækilega í gegn!
Í dag var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur víða um land. Hér í skólanum ákváðum við að tengja daginn sérstaklega við þá Jón Stefán og Ármann Sveinssyni, gjarnan þekktir sem Nonni og Manni. Var það gert vegna þess að Nonni fæddist einmitt 16. nóvember árið 1857, og líka vegna þess að núna eru 100 ár liðin frá því að fyrsta bókin eftir hann var þýdd á íslensku.
Dagurinn var stútfullur af dagskrá. Hann byrjaði með gæðastund eins og venjan er, en klukkan 8:30 safnaðist allur skólinn saman í matsalnum til að hlýða á hana Rögnu frá Minjasafninu sem sagði okkur ýmislegt um sögu þeirra Nonna og Manna, auk þess sem hún sýndi okkur m.a. myndir af Nonna, skólafélögum hans og af Akureyri forðum daga.
Að loknum morgunmat var skipt liði. Helmingur skólans, eða hópur A, fór á Möðruvelli og Skipalón á meðan að hinn helmingurinn, hópur B, horfði á fyrsta hluta af Nonna og Manna sjónvarpsþáttunum. Þegar fyrri frímínútum lauk fór hópur B svo á Möðruvelli á meðan að hópur A horfði á fyrsta þátt í matsalnum.
Því næst tók hádegismaturinn við. Í dag var boðið upp á Schnitzel sem vakti mikla lukku meðal nemenda og höfðu sumir orð á því að kjötið væri sérstaklega mjúkt og ljúffengt. Boðið var upp á hrásalat, kartöflur og brúna sósu með. Orðið „schnitzel“ á einmitt uppruna sinn að rekja til þýsku, og það sama má segja um þættina sem við horfðum á í dag, en þeir voru upprunalega teknir upp á þýsku! Það var þó einungis skemmtileg tilviljun að Schnitzel hafi verið í boði í dag.
Eftir hádegismat og frímínútur horfði hópur B á þátt nr. 2 af þeim Nonna og Manna, á meðan að hópur A fékk það verðuga verkefni að mála heimskortið upp á vegg í matsalnum. Hópur B fékk svo að merkja alla þá staði sem Nonni heimsótti á ævi sinni og kortleggja för hans með snæri. Voru margir mjög hissa að nú ættu þeir að mála (hvert) skrapp’ann á vegginn, enda tækifæri sem gefst ekki oft.
Það má alveg segja að dagurinn hafi heppnast alveg einstaklega vel og voru nemendur, jafnt sem starfsfólk, hæstánægt með hann.