Skólaráðsfundur var haldinn 19.desember

Skólaráð Hlíðarskóla kom saman á fundi þann 19.desember og má sjá hér fundargerð.

Yfirferð yfir árið 2022

Árið 2022 gekk afskaplega vel hjá okkur og erum við stolt af því starfi sem hefur farið hér fram. Útskrifuðust 12 nemendur um vorið og innskrifuðust 8 nýir nemendur í byrjun haustannar sem er óvenju mikið. Það tók tíma að fá jafnvægi  í hópana sem er ekkert óalgengt þegar nemendahópurinn breytist svona mikið.

Það voru mannabreytingar hjá okkur fyrir haustönnina. Bibbi fór á árs námsleyfi og tók Þráinn við bekknum hans og hefur það gengið vel. Einnig hættu María Hensley fjölskylduráðgjafi og Guðrún uppeldisfulltrúi. Í þeirra stað kom Signý sem fjölskylduráðgjafi og Bjarnhéðinn í stöðu uppeldisfulltrúa. Þau hafa komið sterk inn í hópinn og staðið sig vel. Þráinn var í 60% stöðu hjá okkur en þegar hann fór í stöðuna hans bibba að þá var hún laus. Í þá stöðu var ráðin Fjóla og hefur hún einnig komið mjög sterk inn. Óskað var eftir að 60% staðan yrði hækkuð í 80-100% og fékkst vilyrði fyrir því en þegar var komið að því að þá fékkst ekki aukning á núverandi prósentu.

Haustönnin hefur verið óvenjuleg að því leiti að mikil forföll hafa verið í starfsmannahópnum sem hefur reynt mikið á hópinn og samhliða því að vera með marga nýja nemendur að þá er óhætt að segja að haustið er búið að reyna á starfshópinn. Með bjartsýni að vopni fer starfshópurinn fullur eldmóðs inn í árið 2023.

Skipulagsmál á svæðinu.

Skólinn hefur verið að berjast fyrir bættri aðstöðu umhverfis skólann. Nemendur hafa látið í sér heyra á bekkjarfundum og er þetta líklega það mál sem oftast er rætt á þeim fundum. Nemendur krefjast úrbóta á lóðinni þar sem þeim finnst framboð á afþreyingu fremur fátæklegt. Skólastjóri hefur óskað eftir að bærinn bæti útiaðstöðu í kringum skólann. Boðaði skólastjóri Björgvin hjá fasteignum til að koma og skoða aðstæður og voru hugmyndir um breytingar bornar undir hann. Það sem kom út úr þeirri heimsókn var að hleðsluveggur í kringum Vík var lagaður fyrir 40ára afmæli Hlíðarskóla ásamt því að töluvert var málað inn í Vík. Áætlað er að klára að laga hleðsluvegg í kringum Skjöld á vormánuðum ásamt því að rífa upp hellur og laga stétt við Skjöld. Körfubolti er vinsæll í frímínútum en karfan okkar bilaði og fengum við nýja körfu til bráðabyrgða. Er áætlað að skólinn fái tvær nýjar körfur í vor.

Skólastjóri er að vinna í að svæðið fyrir norðan vík verði lagað. Þar er flötur sem er notaður til fótboltaiðkunar en er í mjög lélegu ástandi. Er ósk skólans og nemenda hans að því svæði verði breytt í eitthvað sem nýtist betur. Einnig hefur skólinn óskað eftir að fá að byggja opið útihús sem yrði staðsett í skógreitnum vestan við Skjöld. Einnig hefur skólastjóri bent á að ástandið á veginum niður að Skjaldavík sé mjög slæmt. Vegurinn er malarvegur með stórum og miklum holum í sem fari illa með bíla starfsmanna og þeirra foreldra sem mæti í foreldrasamtöl. Einnig auki þetta hættuna fyrir skólabílinn sem sér um að keyra nemendur.

Hótelið í nágrenni við skólann lokaði á haustmánuðum. Skólastjóri óskaði eftir að lóðamörk yrðu skjalfest áður en nýr aðili kemur á svæðið og tekur við húsinu. Óskaði skólastjóri eftir því að skólinn fengi aftur blettinn þar sem gróðurhúsið var en hann var áður hluti af skólalóðinni. Einnig var óskað eftir því að skólinn fengi brekkuna  fyrir neðan íbúðarhúsið og að skólinn fengi aftur allan skógreitinn vestan við Skjöld en nágrannar skólans höfðu nýtt hluta af því svæði. Var farið fram á að lóðamörkin yrðu formlega skráð og varveitt þannig að enginn vafi væri hvar lóðamörkin myndu liggja.
Nemendur sem sitja í skólaráði taka undir orð skólastjóra og nefna að hægt sé að setja gerfigrasvöll eða leik-kastala norðan megin við Vík. Þeir segja mjög mikilvægt umgjörð í kringum skólann verði bætt.

Rekstur skólans árið 2022 og útlitið fyrir næsta fjárhagsár.

Rekstur skólans fyrir árið 2022 hefur verið nokkuð snúinn. Verðbólguaukning hefur verið í töluverðan tíma með þeim afleiðingum að allt hefur hækkað. Mikil forföll innan starfshópsins hefur einnig gert það að verkum að gæta hefur þurft aðhalds í öðrum liðum. Allir í starfshópnum hafa þurft að leggjast á eitt svo hlutirnir hafi getað gengið upp og er það merki mikillar samvinnu og samheldni.

Ekki er komin úthlutun fyrir nýtt fjárhagsár en skólastjóri hefur ítrekað mikilvægi þess að 60% staðan sem kom í janúar 2022 að hún verði aukin upp í 100%.

Foreldrafélag.

Foreldrafélag var stofnað í Hlíðarskóla í október. Ákveðið var að gera nefndir fyrir eldri og yngri deild og var markmiðið að vera með að lágmarki einn viðburð á hvorri önn í báðum deildum. Eldri deildin hélt bíó kvöld og pantaði pizzu og yngri deildin var með málun á piparkökuhúsum. Einnig hafði foreldrafélag yngri deildar búið til flottan ratleik en það féll niður út af veðri og lélegri þátttöku.

Það er von okkar í skólanum að foreldrafélagið eigi eftir að eflast og að foreldrar styðji vel við félagið og taki þátt í viðburðum sem það stendur fyrir.

Önnur mál

Engin.

Mætt: Valdimar skólastjóri, Ólafur kennari, Anton uppeldisfulltrúi, Lilja fyrir hönd foreldra, Hilmar og Héðinn fyrir hönd nemenda.

Aðalheiður boðaði forföll en hún situr í skólaráði fyrir aðila í nærumhverfi.

Næsti skólaráðsfundur verður haldinn 20.mars og verður opinn öllum.