Útikennsla

Í valtímum í haust hefur nemendum verið boðið upp á að velja útikennslu og hefur það mælst vel fyrir.

Nemendur hafa meðal annars verið að vinna að því að koma sér upp aðstöðu uppi í tréhúsi, sett upp hengirúm og nokkrar rólur auk þess sem vonir standa til að hægt verði að útbúa flotbryggju sem staðsett væri í sjónum hér í Skjaldarvíkinni.

Mikil og góð sköpun og óhætt að segja að krakkarnir hafi tekið vel til hendinni og lært heilan helling!

Ærslabelgur á skólalóðina

Einhver muna ef til vill eftir því að nemendur skólans efndu til áheitahlaups síðastliðið vor þar sem þau söfnuðu fyrir bættu útisvæði á skólalóðinni. Undirtektir voru góðar og söfnuðust rúmar 170.000 krónur.

Sveitafélagið kom til móts við krakkana og var ákveðið að fjárfesta í ærslabelg og setja hann á skólalóðina. Rétt fyrir snjókomu var svo loks komið að því að setja ærslabelginn niður og gátu nemendur skemmt sér á honum í nokkra daga áður en nauðsyn var að taka loftið úr honum aftur vegna slysahættu í frostinu.

Loft verður aftur sett í belginn þegar tækifæri myndast til þess.

Húnaferð 2024

Föstudaginn 6 september var okkur boðið í siglingu um borð í Húna II og fengum við frábært veður (sjá myndir hér). Einhverjir nemendur höfðu farið áður en allir voru ótrúlega spenntir og glaðir yfir þessari ferð. Öllum nemendum Hlíðarskóla er boðið í siglingu með Húna II á hausti hverju.

Með okkur um borð voru 9 starfsmenn Húna II ásamt Hreiðari Þór Valtýssyni sjávarlíffræðingi sem fræddi bæði starfsmenn og nemendur um allskonar lífverur sem lifa í sjónum í kringum Ísland. Einnig skar hann upp þorsk og fræddi nemendur um líffræði fisksins sem mörgum þótti skemmtilegt.

Siglt var áleiðis rétt út fyrir Arnarnesvík en stoppað var nokkrum sinnum á leiðinni þangað og til baka þar sem allir fengu að veiða en börnin veiddu heilmikið af fisk, bæði þorsk og ýsu. Áður en ferðinni lauk tóku starfsmenn Húna II og grilluðu aflann um borð fyrir okkur sem allir voru himinsælir með. Einnig höfðum við tíma til að sigla nálægt heita fossinum sem er Svalbarðsstrandarmegin í firðinum en hann þykir mjög fallegur.

Ferðin tókst ótrúlega vel og viljum við þakka Húna II fyrir hlýlegar og góðar móttökur

Göngudagurinn

Hinn árlegi göngudagur (sjá myndir hér) var haldin nú á mánudag og fengum við þetta frábæra veður.

Báðar deildir byrjuðu daginn á göngu niður í fjöru þar sem ýmislegt skemmtilegt var skoðað en við erum einstaklega lánsöm með fallega umhverfi hér í kring. Börnin fundu dauðan fisk, fullt af marflóm, skeljum, kuðunga og margt fleira áhugavert.

Þetta árið var svo breytt útaf vananum og ákveðið að labba Leirurnar og þaðan uppí Kjarnaskóg eftir morgunmat. Útsýnið var einstaklega fallegt og þótti mörgum áhugavert að skoða brýrnar ásamt öllu öðru í kring. Við vorum einnig svo heppin að sjá svanapar með 4 unga á einu vatninu upp við veginn. Uppí Kjarnaskógi biðu Zakir og Erla með grillaða hamborgara fyrir duglegu göngugarpana en eftir mat var skógurinn og leiktækin þar nýtt til hins fyllsta eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Skólasetning Hlíðarskóla

Hliðarskóli verður settur fimmtudaginn 22. klukkan 10:00 í matsal skólans.

Nemendur fá stundatöflur sínar og tímaáætlun skólabílsins, ásamt því að símafrí grunnskóa Akureyrarbæjar verður kynnt.

Skólastjóri sendir tölvupóst með frekari upplýsingum til foreldra.

Símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar

Sáttmáli um símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar mun taka í gildi í ágúst 2024. Í sáttmálanum felst eftirfarandi:

  • Í grunnskólum Akureyrarbæjar skulu nemendur ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leið milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar.
    • Þetta á einnig við önnur snjalltæki sem trufla kennslu og einbeitingu (t.d. snjallúr)
  • Á föstudögum er nemendum á unglingastigi heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum.
  • Símar og önnur snjalltæki eru ávallt á ábyrgð eigenda sinna.
  • Komi nemendur með síma í skólann, þá skulu nemendur setja símana í geymslu í læstum skápum. Símar skulu ekki geymdir í fatnaði nemenda eða á borðum.

Undantekningar

  • Símafrí nær ekki til skólaferðalags nemenda við lok 10. bekkjar. Hver skóli ber ábyrgð á því hvernig þeim reglum skuli hagað í samráði við áfangastað.
  • Nemendur sem þurfa á síma að halda v. heilsufarslegra ástæðna (t.d. vegna sykursýkismælinga) er leyfilegt að hafa síma á sér, en aðeins til notkunar í þeim tilgangi.

Viðbrögð við notkun síma í leyfisleysi

Sé reglum um símafrí ekki fylgt eftir fær nemandi áminningu/samtal við kennara og tækifæri til setja símann á viðeigandi stað. Við endurtekið brot er nemanda boðið að velja á milli þess að:

A. afhenda símann sem verður geymdur á skrifstofu skólastjórnanda til loka skóladags nemanda.

B. fara á skrifstofu skólastjórnanda og bíða þar uns foreldri hefur komið í skólann til að ljúka afgreiðslu málsins.

Við Ítrekuð brot á símafríi er boðað til fundar með nemanda og foreldrum og skráning gerð í Mentor.

 Í símalausu skólastarfi notar starfsfólk ekki síma sína á svæðum nemenda nema með einstökum undantekningum og þá vegna starfsins.

Skólaferðalög 2024

Nú fer skólaárinu senn að ljúka og því tími fyrir skólaferðalög en yngri deildin skellti sér austur fyrir fjall 29.maí og sú eldri vestur yfir heiði 30.maí. Bæði ferðalögin gengu frekar vel fyrir sig en þau voru vel skipulögð af kennurum sem pössuðu vel uppá afþeyingu ásamt skoðunarferðum þar sem allir gátu lært eitthvað nýtt.

Yngri deildin (myndir í hlekki) byrjaði daginn á Grenjaðarstað í Þingeyjarsveit, þar er þetta glæsilega gamla prestsetur með mikið af gömlum og áhugaverðum hlutum. Þaðan var förinni heitið í Ásbyrgi þar sem skoðuð var sýningin í gestastofunni, grillaðar pylsur og sykurpúða ásamt því að rölta inn að Botnstjörn. Mývatnssveit var næsti áfangastaður þar sem keyrt var upp að hverasvæðinu og endaði hópurinn á því að skella sér í Jarðböðin. Eftir böðin var farið á pizzahlaðborð í Dalakofanum á Laugum og síðasti áfangastaður var Goðafossinn glæsilegi.

Eldri deildin (myndir í hlekki) fór vestur í Skagafjörð að skoða ýmsa víkingatengda staði en fyrst var ferðinni heitið að Reykjafossi sem er virkilega fallegur. Kakalaskáli var næsti áfangastaður þar sem þau fengu kynningu og skoðuðu steina, næst skellti hópurinn sér í sund í Varmahlíð áður en þau renndu í Ásheima að hitta Árna Hegranesgoða þar sem þau fengu að skoða hofið, grilla pylsur og kynnast ásatrúnni. Eftir hádegið var farið á Hofsós að skoða stuðlabergið, síðan var farið á Sauðárkrók á 1238 safnið og í Mjólkursamlagið. Síðasta stoppið í þessu bráðskemmtilega ferðalagi var svo Bakkaflöt þar sem þau skelltu sér í loftbolta og þrautabraut.

Þemadagar 2024

Þemadagar í ár (myndir í hlekki) voru haldnir þriðjudaginn 14. maí og miðvikudaginn 15. maí. Þemað þetta skiptið var hafið og höfðu bæði nemendur og starfsmenn ótrúlega gaman af.

Á þriðjudeginum byrjaði eldri deildin á að fara Hauganes fram að hádegi þar sem var farið í pottana og vaðið í sjóinn á meðan yngri deildin fór í fjöruna hjá okkur og týndi þar bæði rusl og ýmislegt áhugavert sem hægt var að smíða úr og föndra eins og sést á mynd hér að ofan. Eftir hádegi fóru allir í vinnusmiðjur þar sem hægt var að fara í skartgripagerð, listaverkagerð (mynd að ofan) og teikna myndir tengdar hafinu.

Miðvikudagur byrjaði eins nema yngri skelltu sér í pottana á Hauganesi og eldri fóru í fjöruna hér í Skjaldarvík. Eftir hádegi var svo hin árlega og æsispennandi bátakeppni þar sem allir stóðu sig með prýði og bátarnir ótrúlega flottir. Í þriðja sæti þetta árið var hann Viktor Atli og fékk bronsið, Aron Máni hneppti annað sætið og silfrið en í fyrsta sæti var Jónas Perez ásamt því að fá verðlaun fyrir frumlegasta bátinn (KFC kjúklingaleggur).

1 2 3 12