Föndurdagur og gluggaskreytingar

Síðustu vikur hafa nemendur verið að undirbúa gluggaskreytingar og fimmtudaginn 28 nóvember var svo farið og málað þær í glugga Pennans Eymundssonar á Akureyri. Við getum með stolti sagt að Hlíðarskóli hefur hlotið þennan heiður að nærri óslitnu síðan 2008 að skreyta þessa glugga. Á hverju ári hafa nemendur verið okkur til sóma og gert myndir sem skólinn getur verið stoltur af.

Þeir nemendur sem ekki fóru í gluggaskreytingar fengu að skreyta stofuna sína og horfa á jólamynd fyrir hádegi. Eftir hádegi vorum við með jólaföndurdag og bauðst foreldrum/forráðamönnum og öðrum fjölskyldumeðlimum að koma og búa til ýmiskonar jólaskraut með börnunum sínum. Sló það heldur betur í gegn og var góð mæting. Við áttum virkilega huggulega stund með kakó og smákökum yfir skemmtilegu og fjölbreyttu föndri og viljum við þakka ykkur kærlega fyrir komuna.

Einhverjar myndir voru teknar í Pennanum og í jólaföndrinu og hægt er að finna þær hér.

Kuldatíð

Vegna kulda var ekki farið í skólasund í dag. Þess í stað voru nemendur sem áttu að vera í sundi hér í skólanum og spiluðu spil og unnu verkefni.

Þar sem farið er að kólna úti og snjórinn kominn minnum við á mikilvægi þess að nemendur komi vel búin til útiveru. Allir nemendur fara út í frímínútur að minnsta kosti einu sinni á dag og mörg kjósa að fara í báðum frímínútum. Einnig er þónokkuð um að nám fari fram utandyra einnig svo það er mjög mikilvægt að vera í hlýjum skóm, í úlpu, snjóbuxum eða galla ásamt því að hafa húfu og vettlinga.

Dagur mannréttinda barna

Dagur mannréttinda barna er haldinn 20. nóvember ár hvert og er hann helgaður vitundarvakningu og fræðslu um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. 

Í tilefni dagsins höfðu allir nemendur okkar unnið saman að því innan bekkja að móta stefnumál og koma fram með áherslur og atriði sem skipta þau máli hér í nærumhverfinu og stofnuðu þau „stjórnmálaflokk“ í hverri stofu. Flest málefnin snéru að því að gera skólann að betri stað, breytingar á útisvæðinu okkar komu fram hjá öllum flokkum, óskir um að fá að koma með nesti einu sinni í mánuði, hafa dótadag reglulega, fá salatbar í matsalinn til að hafa alltaf aðgang að hollu grænmeti í hádeginu burt séð frá því sem væri í matinn hverju sinni. Nemendur stóðu fyrir kynningu fyrir alla nemendur og starfsfólk skólans og svo var kosning. Mjög góð þátttaka var í kosningunum og gafst gott tækifæri til að kenna mikilvægi þess að tjá skoðun sína og mæta á kjörstað. Nýta lýðræðið og hversu dýrmætt það er. Sett var upp kjördeild í Skildi og farið eftir öllum helstu atriðum lýðræðislegra kosninga.

Þegar úrslitin lágu fyrir var það að lokum flokkurinn Kexkökurnar sem báru sigur úr býtum.

Helstu áherslur flokksins eru:

  • – Einu sinni í mánuði meiga yngri deild og eldri deild spila borðspil eða kahoot.
  • -Bæta leiksvæði á skólalóð, t.d kastali og línur fyrir fótboltavöll.
  • -Nýta skjöld betur ásamt því að nýta úti svæðið betur. Nýta fjörunna betur og stækka heimilisfræði stofu.
  • -Hafa salatbar til að fá í hádegi og hafa sósu þannig við getum fengið okkur salat í skál.

Þemadagar

Dagana 16 og 17 október vorum við með þemadaga (sjá myndir hér) þar sem nemendur fengu að kynnast ákveðnum þjóðsögum og vinna svo ýmisleg fjölbreytt verkefni uppúr þeim. Þær sögur sem notast var við voru Bóndinn að Reynistað og huldumaðurinn, Þorgeirsboli, Lagafljótsormurinn, Grettissaga, Bakkabræður og djákninn á Myrká.

Lagafljótsormurinn var búin til úr pizzadeigi, Þorgeirsboli var teiknaður, Bóndinn að Reynistað og huldumaðurinn voru gerðir með storyboard (teiknimyndaforrit), Grettissaga var gerð með stop-motion aðferð, Bakkabræður voru gerðir bæði með leikrænni tjáningu og teiknaðir en nýtt var tækifærið með djáknann á Myrká og farið í vettvangsferð þangað þar sem nemendur fengu að skoða staðinn, sáluhliðið og klukkurnar sem standa þarna enn.

Útikennsla

Í valtímum í haust hefur nemendum verið boðið upp á að velja útikennslu og hefur það mælst vel fyrir.

Nemendur hafa meðal annars verið að vinna að því að koma sér upp aðstöðu uppi í tréhúsi, sett upp hengirúm og nokkrar rólur auk þess sem vonir standa til að hægt verði að útbúa flotbryggju sem staðsett væri í sjónum hér í Skjaldarvíkinni.

Mikil og góð sköpun og óhætt að segja að krakkarnir hafi tekið vel til hendinni og lært heilan helling!

Ærslabelgur á skólalóðina

Einhver muna ef til vill eftir því að nemendur skólans efndu til áheitahlaups síðastliðið vor þar sem þau söfnuðu fyrir bættu útisvæði á skólalóðinni. Undirtektir voru góðar og söfnuðust rúmar 170.000 krónur.

Sveitafélagið kom til móts við krakkana og var ákveðið að fjárfesta í ærslabelg og setja hann á skólalóðina. Rétt fyrir snjókomu var svo loks komið að því að setja ærslabelginn niður og gátu nemendur skemmt sér á honum í nokkra daga áður en nauðsyn var að taka loftið úr honum aftur vegna slysahættu í frostinu.

Loft verður aftur sett í belginn þegar tækifæri myndast til þess.

Húnaferð 2024

Föstudaginn 6 september var okkur boðið í siglingu um borð í Húna II og fengum við frábært veður (sjá myndir hér). Einhverjir nemendur höfðu farið áður en allir voru ótrúlega spenntir og glaðir yfir þessari ferð. Öllum nemendum Hlíðarskóla er boðið í siglingu með Húna II á hausti hverju.

Með okkur um borð voru 9 starfsmenn Húna II ásamt Hreiðari Þór Valtýssyni sjávarlíffræðingi sem fræddi bæði starfsmenn og nemendur um allskonar lífverur sem lifa í sjónum í kringum Ísland. Einnig skar hann upp þorsk og fræddi nemendur um líffræði fisksins sem mörgum þótti skemmtilegt.

Siglt var áleiðis rétt út fyrir Arnarnesvík en stoppað var nokkrum sinnum á leiðinni þangað og til baka þar sem allir fengu að veiða en börnin veiddu heilmikið af fisk, bæði þorsk og ýsu. Áður en ferðinni lauk tóku starfsmenn Húna II og grilluðu aflann um borð fyrir okkur sem allir voru himinsælir með. Einnig höfðum við tíma til að sigla nálægt heita fossinum sem er Svalbarðsstrandarmegin í firðinum en hann þykir mjög fallegur.

Ferðin tókst ótrúlega vel og viljum við þakka Húna II fyrir hlýlegar og góðar móttökur

Göngudagurinn

Hinn árlegi göngudagur (sjá myndir hér) var haldin nú á mánudag og fengum við þetta frábæra veður.

Báðar deildir byrjuðu daginn á göngu niður í fjöru þar sem ýmislegt skemmtilegt var skoðað en við erum einstaklega lánsöm með fallega umhverfi hér í kring. Börnin fundu dauðan fisk, fullt af marflóm, skeljum, kuðunga og margt fleira áhugavert.

Þetta árið var svo breytt útaf vananum og ákveðið að labba Leirurnar og þaðan uppí Kjarnaskóg eftir morgunmat. Útsýnið var einstaklega fallegt og þótti mörgum áhugavert að skoða brýrnar ásamt öllu öðru í kring. Við vorum einnig svo heppin að sjá svanapar með 4 unga á einu vatninu upp við veginn. Uppí Kjarnaskógi biðu Zakir og Erla með grillaða hamborgara fyrir duglegu göngugarpana en eftir mat var skógurinn og leiktækin þar nýtt til hins fyllsta eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Skólasetning Hlíðarskóla

Hliðarskóli verður settur fimmtudaginn 22. klukkan 10:00 í matsal skólans.

Nemendur fá stundatöflur sínar og tímaáætlun skólabílsins, ásamt því að símafrí grunnskóa Akureyrarbæjar verður kynnt.

Skólastjóri sendir tölvupóst með frekari upplýsingum til foreldra.

1 2 3 12