Kæru foreldrar / forráðamenn leik- og grunnskólanemenda á Akureyri

Eins og mörgum er kunnugt, þá stendur yfir innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Nú er kominn nýr og aðgengilegur vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér og hvert hlutverk tengiliða er. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innibera.

Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi. 

Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Á heimasíðu skólans, Farsæld barna – Hlíðarskóli Akureyri (hlidarskoli.is) má sjá hver hefur hlutverk sem tengiliður í Hlíðarskóla. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni. Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar.

Með góðri farsældarkveðju,

Helga Vilhjálmsdóttir, innleiðingarstjóri farsældarlaga á fræðslu- og lýðheilsusviði

Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs

Valdimar Heiðar Valsson, skólastjóri Hlíðarskóla

Nemendaþing 11.maí

Þann 11.maí fór fram nemendaþing hér í Hlíðarskóla. Nemendum var skipt í 4 hópa þvert á aldur og var hverjum hóp skipaður borðstjóri sem var kennari. Borðstjórinn bar upp umræðuefnið og sá til þess að allir fengu jöfn tækifæri til þess að tjá þig. Borðstjóri sá einnig um að skrifa niður allt sem kom fram hjá hópunum. Tilgangurinn með nemendaþinginu var að gefa nemendum vettvang til að láta ljós skoðanir sýnar á hin ýmsu málefni tengdu skólastarfi Hlíðarskóla. Gögnunum  verður síðan safnað saman, þau yfirfarin og notuð til að bæta skólastarf Hlíðarskóla. Við viljum þakka nemendum fyrir frábæra vinnu á nemendaþinginu og hlökkum til að hefjast handa að vinna úr þeim punktum sem komu fram til að efla og bæta skólastarfið.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af hópunum.

Opinn skólaráðsfundur

Opinn skólaráðsfundur 27.02.2023
Mætt voru: Valdimar (skólastjóri), Ólafur (kennari), Anton (uppeldisfulltrúi) og Lilja (foreldri), fulltrúar nemenda voru báðir frá skóla þennan dag.

Ákveðið var að afgreiða skóladagatal fyrir 2023-2024 á fundinum þar sem skóladagatöl þurfa að berast fræðslu og lýðheilsusviði fyrir mánaðarmót. Farið var yfir skóladagatalið til að ganga úr skugga um að fjöldi daga væru réttir. Við yfirferð var ákveðið að leggja til að bæta við einum uppbrotsdegi. Þeir geta mest verið 10 talsins en eru 9 á því dagatali sem lagt var fyrir. Valdimar mun leggja tillöguna fyrir kennara á morgun þriðjudaginn 28.02.2023 og senda síðan á fræðslu og lýðheilsusvið að því loknu. Allir greiddu atkvæði með tillögunni.

Valdimar bar þá upp aðra tillögu. Þar sem vantaði báða nemendurna í skólaráðið að þá var lagt til að fresta þeim fundarefnum sem voru eftir á fundinum og boða nýjan fund við fyrsta tækifæri. Mikilvægt væri að nemendur í skólaráði myndu sitja fundinn þegar ræða ætti skólalóðina þar sem sterkt ákall hefur verið frá nemendum skólans að aðstaðan á útisvæðinu verði bætt.

Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum og mun Valdimar sjá um að boða nýjan fund við fyrsta tækifæri.

Fundi slitið í kjölfarið.

Skólaráðsfundur var haldinn 19.desember

Skólaráð Hlíðarskóla kom saman á fundi þann 19.desember og má sjá hér fundargerð.

Yfirferð yfir árið 2022

Árið 2022 gekk afskaplega vel hjá okkur og erum við stolt af því starfi sem hefur farið hér fram. Útskrifuðust 12 nemendur um vorið og innskrifuðust 8 nýir nemendur í byrjun haustannar sem er óvenju mikið. Það tók tíma að fá jafnvægi  í hópana sem er ekkert óalgengt þegar nemendahópurinn breytist svona mikið.

Það voru mannabreytingar hjá okkur fyrir haustönnina. Bibbi fór á árs námsleyfi og tók Þráinn við bekknum hans og hefur það gengið vel. Einnig hættu María Hensley fjölskylduráðgjafi og Guðrún uppeldisfulltrúi. Í þeirra stað kom Signý sem fjölskylduráðgjafi og Bjarnhéðinn í stöðu uppeldisfulltrúa. Þau hafa komið sterk inn í hópinn og staðið sig vel. Þráinn var í 60% stöðu hjá okkur en þegar hann fór í stöðuna hans bibba að þá var hún laus. Í þá stöðu var ráðin Fjóla og hefur hún einnig komið mjög sterk inn. Óskað var eftir að 60% staðan yrði hækkuð í 80-100% og fékkst vilyrði fyrir því en þegar var komið að því að þá fékkst ekki aukning á núverandi prósentu.

Haustönnin hefur verið óvenjuleg að því leiti að mikil forföll hafa verið í starfsmannahópnum sem hefur reynt mikið á hópinn og samhliða því að vera með marga nýja nemendur að þá er óhætt að segja að haustið er búið að reyna á starfshópinn. Með bjartsýni að vopni fer starfshópurinn fullur eldmóðs inn í árið 2023.

Skipulagsmál á svæðinu.

Skólinn hefur verið að berjast fyrir bættri aðstöðu umhverfis skólann. Nemendur hafa látið í sér heyra á bekkjarfundum og er þetta líklega það mál sem oftast er rætt á þeim fundum. Nemendur krefjast úrbóta á lóðinni þar sem þeim finnst framboð á afþreyingu fremur fátæklegt. Skólastjóri hefur óskað eftir að bærinn bæti útiaðstöðu í kringum skólann. Boðaði skólastjóri Björgvin hjá fasteignum til að koma og skoða aðstæður og voru hugmyndir um breytingar bornar undir hann. Það sem kom út úr þeirri heimsókn var að hleðsluveggur í kringum Vík var lagaður fyrir 40ára afmæli Hlíðarskóla ásamt því að töluvert var málað inn í Vík. Áætlað er að klára að laga hleðsluvegg í kringum Skjöld á vormánuðum ásamt því að rífa upp hellur og laga stétt við Skjöld. Körfubolti er vinsæll í frímínútum en karfan okkar bilaði og fengum við nýja körfu til bráðabyrgða. Er áætlað að skólinn fái tvær nýjar körfur í vor.

Skólastjóri er að vinna í að svæðið fyrir norðan vík verði lagað. Þar er flötur sem er notaður til fótboltaiðkunar en er í mjög lélegu ástandi. Er ósk skólans og nemenda hans að því svæði verði breytt í eitthvað sem nýtist betur. Einnig hefur skólinn óskað eftir að fá að byggja opið útihús sem yrði staðsett í skógreitnum vestan við Skjöld. Einnig hefur skólastjóri bent á að ástandið á veginum niður að Skjaldavík sé mjög slæmt. Vegurinn er malarvegur með stórum og miklum holum í sem fari illa með bíla starfsmanna og þeirra foreldra sem mæti í foreldrasamtöl. Einnig auki þetta hættuna fyrir skólabílinn sem sér um að keyra nemendur.

Hótelið í nágrenni við skólann lokaði á haustmánuðum. Skólastjóri óskaði eftir að lóðamörk yrðu skjalfest áður en nýr aðili kemur á svæðið og tekur við húsinu. Óskaði skólastjóri eftir því að skólinn fengi aftur blettinn þar sem gróðurhúsið var en hann var áður hluti af skólalóðinni. Einnig var óskað eftir því að skólinn fengi brekkuna  fyrir neðan íbúðarhúsið og að skólinn fengi aftur allan skógreitinn vestan við Skjöld en nágrannar skólans höfðu nýtt hluta af því svæði. Var farið fram á að lóðamörkin yrðu formlega skráð og varveitt þannig að enginn vafi væri hvar lóðamörkin myndu liggja.
Nemendur sem sitja í skólaráði taka undir orð skólastjóra og nefna að hægt sé að setja gerfigrasvöll eða leik-kastala norðan megin við Vík. Þeir segja mjög mikilvægt umgjörð í kringum skólann verði bætt.

Rekstur skólans árið 2022 og útlitið fyrir næsta fjárhagsár.

Rekstur skólans fyrir árið 2022 hefur verið nokkuð snúinn. Verðbólguaukning hefur verið í töluverðan tíma með þeim afleiðingum að allt hefur hækkað. Mikil forföll innan starfshópsins hefur einnig gert það að verkum að gæta hefur þurft aðhalds í öðrum liðum. Allir í starfshópnum hafa þurft að leggjast á eitt svo hlutirnir hafi getað gengið upp og er það merki mikillar samvinnu og samheldni.

Ekki er komin úthlutun fyrir nýtt fjárhagsár en skólastjóri hefur ítrekað mikilvægi þess að 60% staðan sem kom í janúar 2022 að hún verði aukin upp í 100%.

Foreldrafélag.

Foreldrafélag var stofnað í Hlíðarskóla í október. Ákveðið var að gera nefndir fyrir eldri og yngri deild og var markmiðið að vera með að lágmarki einn viðburð á hvorri önn í báðum deildum. Eldri deildin hélt bíó kvöld og pantaði pizzu og yngri deildin var með málun á piparkökuhúsum. Einnig hafði foreldrafélag yngri deildar búið til flottan ratleik en það féll niður út af veðri og lélegri þátttöku.

Það er von okkar í skólanum að foreldrafélagið eigi eftir að eflast og að foreldrar styðji vel við félagið og taki þátt í viðburðum sem það stendur fyrir.

Önnur mál

Engin.

Mætt: Valdimar skólastjóri, Ólafur kennari, Anton uppeldisfulltrúi, Lilja fyrir hönd foreldra, Hilmar og Héðinn fyrir hönd nemenda.

Aðalheiður boðaði forföll en hún situr í skólaráði fyrir aðila í nærumhverfi.

Næsti skólaráðsfundur verður haldinn 20.mars og verður opinn öllum.

Hrekkjavaka

Við héldum upp á hrekkjavökuna 31.október s.l. og tókst það einstaklega vel.

Starfsfólk og margir nemendur mættu í búningum sem setti skemmtilegan svip á daginn.

Dagurinn byrjaði á gæðastund en síðan tók alvaran við og fóru nemendur í gegnum draugahús. Nemendur gátur ráðið hvort þeir færu einir eða í fylgd með starfsmanni. Í morgunmatnum var boðið upp á grænan hafragraut ásamt því morgunkorni sem er yfirleitt í boði. Eftir morgunmatinn var spilað Bingo og farið í allskonar leiki. Eftir hádegismatinn var horft á hrekkjavöku bíómynd og var boðið upp á popp. Frábær dagur í alla staði.

Hér koma nokkrar myndir frá deginum.

Mynd úr draugahúsinu

Græni hafragrauturinn

Oddný bakaði hrekkjavökuköku.

Oddný með glæsilega köku.,

Bingó

Glæsilegur hópur starfsfólk sem lagði mikið á sig til að gera daginn sem skemmtilegastan fyrir nemendur.

Hvar er valli?

Vikan 24-28. október.

Jæja þá er enn ein vikan runnin sitt skeið og óhætt að segja að vikan hafi gengið nokkuð vel fyrir sig.

Ýmislegt hefur verið gert t.d. í gær vorum við með valtíma tengdu Halloween föndri og skemmtu nemendur sér konunglega. Skólinn keypti síðan fjögur grasker og fékk hver stofa eitt til þess að skera út og gera eftir sínu höfði.

Starfsfólk hefur verið í óða önn að græja drauga hús fyrir mánudaginn sem verður síðan partur af Halloween deginum okkar. Einnig ætlum við að spila Bingó og gera margt skemmtilegt í tilefni dagsins.
Látum nokkrar myndir fylgja frá vikunni sem er að líða.

Skólablaðið í tilefni 40 ára afmælis Hlíðarskóla

Þá er skólablaðið okkar komið á vefinn. Blaðið var partur af þemavinnu sem fór fram í aðdraganda 40 ára afmæli Hlíðarskóla.

Nemendur fengu frjálsar hendur með efnisval fyrir blaðið og varð þetta útkoman.

Við erum afskaplega stolt af blaðinu okkar og vonum að þið hafið gagn og gaman af.

https://drive.google.com/file/d/1LWUHWP1F4asCCk3yq5-QgDGRG2GOKRjW/view?usp=sharing

BBQ rif og franskar

Miðvikudagurinn 19.október réðu nemendur hvað var í matinn. Fyrir valinu varð BBQ rif og franskar.

Gríðarleg ánægja var með þetta uppbrot í skólanum og hafði einn nemandi orð á því að líklega væri Styrmir besti kokkur í heimi.

Það var gaman að geta komið til móts við okkar frábæru nemendur og munum við gera þetta aftur á næstu önn.

Hér koma nokkrar myndir frá hádeginu.

1 2 3 4