FORELDRAÞÁTtTAKA

Foreldraþátttaka

Í byrjun hvers skólaárs, eða að hausti, þegar nemendurnir hefja námið mæta foreldrar/umönnunaraðilar (hér eftir einungis talað um sem foreldra) á fyrsta fund vetrarins, en þeir fundir eiga eftir að verða margir. Á þann fund boðar fjölskylduráðgjafi foreldra.

Í upphafi skólaárs ræða foreldrar við fjölskylduráðgjafa um hvernig sumarið hefur gengið, hvað gengur vel og hvað mætti ganga betur. Hafa einhverjar breytingar orðið í lífi nemanda frá síðasta skólaári, hvernig sjá foreldrar skólaárið og hvaða væntingar hafa þeir til skólans. Þegar nýir nemendur koma í skólann er fyrsta viðtal við fjölskylduráðgjafa ýtarlegra en þar er þá farið yfir sögu nemanda og fjölskyldunnar, hvernig er bakland barnsins og hvernig getur fjölskylduráðgjafi og annað starfsfólk skólans sem best stutt við fjölskylduna.

Á fyrsta fundi með nemandanum, umsjónarkennara, foreldra og fjölskylduráðgjafa er tekin sameiginleg ákvörðun um:

  1. Námsleg markmið – hvað viljum við sjá hafa breyst í námi og vinnubrögðum nemandans til vors? Getur varðað mætingar, ástundun, vandvirkni, að ná jafnöldrum nemandans í námi og fleira.
  2. Hegðun – hvaða hegðun viljum við sjá hverfa eða minnka, og hvað viljum við sjá í staðinn? Getur varðað hegðun í kennslustundum, frímínútum og heima. Útivistarreglur, svefntíma, matarvenjur og fleira.
  3. Annað – bætt sjálfsmynd, aukið sjálfsöryggi og sjálfsábyrgð.
  4. Félagsleg markmið og heilsumarkmið – þegar nemandi vinnur að markmiðum sem tengjast þessu er verið að ræða t.d. tengingu barns við vini, er barnið að æfa einhverja íþrótt eða annað sem stuðlar að samskiptum við jafnaldra. Tölvunotkun og samskipti á heimilinu, snyrtimennsku, svefn og hreyfing.
  5. Fundatíðni – að jafnaði eru tveir fundir á mánuði sem foreldrar taka þátt í, markmiðsfundur og fundur þar sem foreldrar og fjölskylduráðgjafi taka stöðuna og ræða hvernig gengur heima, í skóla og í félagslegu umhverfi barnsins . Á þeim fundum eru settar niður sameiginlegar reglur og ákveðnar leiðir til þess að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið og  farið yfir það hvernig gengur að framfylgja ákvörðunum. Umsjónarkennari nemandans er þátttakandi á markmiðs fundum 1x í mánuði að jafnaði, en oftar ef þurfa þykir.

 

Þessi atriði eru skráð í fundargerð og notuð við gerð einstaklingsnámskrár. Þau eru síðan endurskoðuð eftir áramót og endurbætt og síðan aftur að vori, en þá er árangur metinn af þessum sömu aðilum.

Við ákvarðanir á meðferðaraðferðum er farið yfir þær aðferðir sem foreldrum hefur gefist vel að nota heima og þær yfirfærðar á þau atriði sem verið er að vinna með í skólanum. Á sama hátt er foreldrum leiðbeint með aðferðir sem gefast vel í skólanum að nota þær heima til þess að ná árangri með hegðun nemenda þar.

Á þennan hátt er bæði verið að nota aðferðir sem nemandinn þekkir og kann á og aðferðir sem eru nýstárlegar fyrir hann.

Foreldrar fá stöðugt upplýsingar um framgang mála, með netpósti, símtali eða á boðuðum fundi. Látlaust er verið að vega og meta hvort aðferðirnar virka og hvar þær virka. Ekki er hægt að ganga út frá því sem vísu að aðferð sem virkar á einum stað virki endilega vel á þeim næsta. Auk þess sem hinir fullorðnu sem að meðferð nemandans koma eru ólíkir og hafa ólíkan máta að vinna úr og setja fram hugmyndir sínar.

Auk þessa hefðbundna foreldrastarfs eru foreldrar hvattir til að líta við og taka þátt. Þetta hefur því miður ekki gengið eins og æskilegt er sökum Covid-19 en við hlökkum til að sjá ykkur þegar það verður leyfilegt.

María Guðbjörg Hensley, fjölskylduráðgjafi