FORELDRAÞÁTtTAKA

Skólafélagsráðgjafi

Skólafélagsráðgjafi vinnur í nánu samstarfi með forráðamönnum, kennurum, skólastjóra og öðru starfsfólki sem koma að starfi nemenda. Við Hlíðarskóla er starfandi félagsráðgjafi.

Heildarsýn er leiðarljós í allri vinnu félagsráðgjafa. Hún felur í sér að gaumgæfa félagslegar-, tilfinningalegar og námslegar aðstæður einstaklinga sem þeir vinna með hverju sinni.

Félagsráðgjafi hefur sérþekkingu umfram aðrar starfsstéttir á barnaverndarlögum og úrræðum samfélagsins og veitir einnig ráðgjöf varðandi ýmis réttindamál sem varða nemendur og gætir þess að ekki sé brotið á hagsmunum þeirra.

Skólafélagsráðgjafi er tengiliður Hlíðarskóla skv. lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Í því felst m.a. að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns og samvinna við Fræðslu- og lýðheilsusvið og Velferðarsvið Akureyrarbæjar, Barnavernd Eyjafjarðar, BUG teymi SAk, heilsugæslu (HSN), heimaskóla og fl.

Helstu verkefni félagsráðgjafa í Hlíðarskóla eru:

  • Félagsleg og persónuleg ráðgjöf og stuðningur
  • Samvinna, ráðgjöf og stuðningu við foreldra og forráðamenn
  • Forvarnir gegn ofbeldi og andfélagslegri hegðun
  • Samvinna, ráðgjöf og stuðningur við kennara og starfsfólks
  • Þróun úrræða og verkefna
  • Teymisvinna og samstarfsfundir

 

Hvernig vinnum við í Hlíðarskóla?

Samvinna heimilis og skóla er ein megin forsenda þess að jákvæðar breytingar verði í lífi hvers nemanda og fjölskyldu hans. Þegar nemandi kemur inn í skólann er fyrst af öllu horft á styrkleika barns og fjölskyldu þess.

Að ala upp barn er eitt mikilvægasta og mest krefjandi verkefni sem foreldrar takast á við í lífinu. Uppeldisfærni er hins vegar hvorki meðfædd né kemur sjálfkrafa, heldur tekur tíma að tileinka sér nauðsynlega þekkingu, kunnáttu og hæfni.

Foreldrar/uppalendur vilja að börnin sín verði sjálfsörugg, hafi góða félagsfærni, eigi vini og geti sinnt áhugamálum. Mikilvægt er að styðja foreldra í uppeldisfærni og setja markmið og vinna að þeim jafnt og þétt.

 

 

 

Hvers er ætlast til af foreldrum?

Félagsráðgjafi hittir fjölskyldur allra nemenda skólans að meðaltali hálfsmánaðarlega.

Mikil áhersla er lögð á foreldraþátttöku og skuldbinda foreldrar sig þegar barn innritast í Hlíðarskóla að taka þátt í samstarfi og mæta á reglulega fundi.

Samtöl við félagsráðgjafa eru tvíþætt, annars vegar fjölskylduráðgjöf og hins vegar markmiðsvinna.

Í upphafi skólaárs er farið yfir stöðuna, hvað gengur vel og hvað mætti betur ganga. Hafa einhverjar breytingar orðið í lífi nemanda frá síðasta skólaári, hvernig sjá foreldrar skólaárið og hvaða væntingar hafa þeir til skólans. Þar er lagður grunnur að markmiðum hvers og eins með skólavistun í Hlíðarskóla.

 

Þegar nýir nemendur koma í skólann er farið ýtarlega yfir sögu nemanda og fjölskyldunnar, hvernig er bakland barnsins og hvernig getur félagsráðgjafi og annað starfsfólk skólans veitt sem bestan stuðning við fjölskylduna. Í framhaldi af því er farið yfir hvernig sjá foreldrar skólaárið og hvaða væntingar hafa þeir til skólans.

 

Hvað er fjölskylduráðgjöf?

Markviss vinna með foreldrum að uppgötva sín eigin bjargráð og veita stuðning svo auka megi foreldrahæfni sem stuðlar að betri líðan og samskiptum innan fjölskyldunnar og ná betra sambandi við sjálfan sig. Ráðgjöfin getur ýmist snúið að hversdagslegum erfiðleikum, sem og stærri vandamálum sem hafa áhrif á velferð fjölskyldunnar.  

Áhersla er lögð á margbreytileika fjölskyldna og styrkja sjálfstraust foreldra í uppeldishlutverki sínu með fræðslu, umræðu og ráðgjöf um þroska barna og uppeldi í víðum skilningi.

Við ákvarðanir á meðferðaraðferðum er farið yfir þær aðferðir sem foreldrum hefur gefist vel að nota heima og þær yfirfærðar á þá þætti sem verið er að vinna með í skólanum. Á sama hátt er foreldrum leiðbeint að nota þær aðferðir heima, sem gefast vel í skólanum.

 

Hvað er markmiðsvinna?

Í markmiðsvinnu er unnið markvisst að þeim breytingum sem nemandi og fjölskyldan vill ná fram bæði námslega og félagslega. Unnið er með styrkleika barns og leiðir til að breyta/bæta félagsfærni. Þá skoðum við hvernig vistun í Hlíðarskóla getur haft áhrif á þá vinnu og hvaða hlutverki Hlíðarskóli, barnið og foreldrar gegna í þeirri vinnu.

Félagsráðgjafi ásamt foreldrum, barni, umsjónarkennara og þroskaþjálfa sameinast um leiðir til að ná settum markmiðum. Markmiðin sem sett eru snúa bæði að líðan barns heima og í skóla.

 

Umsjónakennari heldur að mestu utan um námsleg markmið er geta varðað ástundun, vandvirkni, framfarir í námi og fleira. Það felur gjarnan í sér það að vera duglegri að biðja um aðstoð, að gefa verkefnum tækifæri og reyna við þau, að temja sér jákvæðni og þrautseigju í skólastarfi, lesa heima o.s.frv.

 

Félagsleg markmið sem fela í sér að bæta sjálfsmynd, auka sjálfsöryggi og sjálfsábyrgð er sameiginlegt verkefni allra, skóla og heimilis. Í skólanum leggjum við áherslu á að efla félagsfærni, sjálfsstjórn og stuðla að jákvæðum samskiptum við jafnaldra og vini. Félagsráðgjafi styður foreldrar í þeirri vinnu sem og jákvæðum breytingum á heimili, s.s. bættum svefnvenjum, fjölbreyttu mataræði, hreyfingu og hreinlæti, umgengi í skóla og á heimili, tölvunotkun og þátttöku í frístundum.

 

Jákvæð samvinna er mikilvæg og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, samábyrgð og gagnkvæmu upplýsingaflæði.

 

„HLUSTAÐU Á ÞAÐ SMÁA OG ÞÉR VERÐUR TREYST FYRIR ÞVÍ STÓRA“

-Húgó Þórisson

Signý Valdimarsdóttir, félagsráðgjafi

Beinn sími / Direct: 414-7981 / 414-7980
sv@akmennt.is