Skólaferðalög 2024

Nú fer skólaárinu senn að ljúka og því tími fyrir skólaferðalög en yngri deildin skellti sér austur fyrir fjall 29.maí og sú eldri vestur yfir heiði 30.maí. Bæði ferðalögin gengu frekar vel fyrir sig en þau voru vel skipulögð af kennurum sem pössuðu vel uppá afþeyingu ásamt skoðunarferðum þar sem allir gátu lært eitthvað nýtt.

Yngri deildin (myndir í hlekki) byrjaði daginn á Grenjaðarstað í Þingeyjarsveit, þar er þetta glæsilega gamla prestsetur með mikið af gömlum og áhugaverðum hlutum. Þaðan var förinni heitið í Ásbyrgi þar sem skoðuð var sýningin í gestastofunni, grillaðar pylsur og sykurpúða ásamt því að rölta inn að Botnstjörn. Mývatnssveit var næsti áfangastaður þar sem keyrt var upp að hverasvæðinu og endaði hópurinn á því að skella sér í Jarðböðin. Eftir böðin var farið á pizzahlaðborð í Dalakofanum á Laugum og síðasti áfangastaður var Goðafossinn glæsilegi.

Eldri deildin (myndir í hlekki) fór vestur í Skagafjörð að skoða ýmsa víkingatengda staði en fyrst var ferðinni heitið að Reykjafossi sem er virkilega fallegur. Kakalaskáli var næsti áfangastaður þar sem þau fengu kynningu og skoðuðu steina, næst skellti hópurinn sér í sund í Varmahlíð áður en þau renndu í Ásheima að hitta Árna Hegranesgoða þar sem þau fengu að skoða hofið, grilla pylsur og kynnast ásatrúnni. Eftir hádegið var farið á Hofsós að skoða stuðlabergið, síðan var farið á Sauðárkrók á 1238 safnið og í Mjólkursamlagið. Síðasta stoppið í þessu bráðskemmtilega ferðalagi var svo Bakkaflöt þar sem þau skelltu sér í loftbolta og þrautabraut.