Húnaferð 2024

Föstudaginn 6 september var okkur boðið í siglingu um borð í Húna II og fengum við frábært veður (sjá myndir hér). Einhverjir nemendur höfðu farið áður en allir voru ótrúlega spenntir og glaðir yfir þessari ferð. Öllum nemendum Hlíðarskóla er boðið í siglingu með Húna II á hausti hverju.

Með okkur um borð voru 9 starfsmenn Húna II ásamt Hreiðari Þór Valtýssyni sjávarlíffræðingi sem fræddi bæði starfsmenn og nemendur um allskonar lífverur sem lifa í sjónum í kringum Ísland. Einnig skar hann upp þorsk og fræddi nemendur um líffræði fisksins sem mörgum þótti skemmtilegt.

Siglt var áleiðis rétt út fyrir Arnarnesvík en stoppað var nokkrum sinnum á leiðinni þangað og til baka þar sem allir fengu að veiða en börnin veiddu heilmikið af fisk, bæði þorsk og ýsu. Áður en ferðinni lauk tóku starfsmenn Húna II og grilluðu aflann um borð fyrir okkur sem allir voru himinsælir með. Einnig höfðum við tíma til að sigla nálægt heita fossinum sem er Svalbarðsstrandarmegin í firðinum en hann þykir mjög fallegur.

Ferðin tókst ótrúlega vel og viljum við þakka Húna II fyrir hlýlegar og góðar móttökur

Göngudagurinn

Hinn árlegi göngudagur (sjá myndir hér) var haldin nú á mánudag og fengum við þetta frábæra veður.

Báðar deildir byrjuðu daginn á göngu niður í fjöru þar sem ýmislegt skemmtilegt var skoðað en við erum einstaklega lánsöm með fallega umhverfi hér í kring. Börnin fundu dauðan fisk, fullt af marflóm, skeljum, kuðunga og margt fleira áhugavert.

Þetta árið var svo breytt útaf vananum og ákveðið að labba Leirurnar og þaðan uppí Kjarnaskóg eftir morgunmat. Útsýnið var einstaklega fallegt og þótti mörgum áhugavert að skoða brýrnar ásamt öllu öðru í kring. Við vorum einnig svo heppin að sjá svanapar með 4 unga á einu vatninu upp við veginn. Uppí Kjarnaskógi biðu Zakir og Erla með grillaða hamborgara fyrir duglegu göngugarpana en eftir mat var skógurinn og leiktækin þar nýtt til hins fyllsta eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Skólaferðalög 2024

Nú fer skólaárinu senn að ljúka og því tími fyrir skólaferðalög en yngri deildin skellti sér austur fyrir fjall 29.maí og sú eldri vestur yfir heiði 30.maí. Bæði ferðalögin gengu frekar vel fyrir sig en þau voru vel skipulögð af kennurum sem pössuðu vel uppá afþeyingu ásamt skoðunarferðum þar sem allir gátu lært eitthvað nýtt.

Yngri deildin (myndir í hlekki) byrjaði daginn á Grenjaðarstað í Þingeyjarsveit, þar er þetta glæsilega gamla prestsetur með mikið af gömlum og áhugaverðum hlutum. Þaðan var förinni heitið í Ásbyrgi þar sem skoðuð var sýningin í gestastofunni, grillaðar pylsur og sykurpúða ásamt því að rölta inn að Botnstjörn. Mývatnssveit var næsti áfangastaður þar sem keyrt var upp að hverasvæðinu og endaði hópurinn á því að skella sér í Jarðböðin. Eftir böðin var farið á pizzahlaðborð í Dalakofanum á Laugum og síðasti áfangastaður var Goðafossinn glæsilegi.

Eldri deildin (myndir í hlekki) fór vestur í Skagafjörð að skoða ýmsa víkingatengda staði en fyrst var ferðinni heitið að Reykjafossi sem er virkilega fallegur. Kakalaskáli var næsti áfangastaður þar sem þau fengu kynningu og skoðuðu steina, næst skellti hópurinn sér í sund í Varmahlíð áður en þau renndu í Ásheima að hitta Árna Hegranesgoða þar sem þau fengu að skoða hofið, grilla pylsur og kynnast ásatrúnni. Eftir hádegið var farið á Hofsós að skoða stuðlabergið, síðan var farið á Sauðárkrók á 1238 safnið og í Mjólkursamlagið. Síðasta stoppið í þessu bráðskemmtilega ferðalagi var svo Bakkaflöt þar sem þau skelltu sér í loftbolta og þrautabraut.