Meginhlutverk skólans er:
- Að vinna úr vanda nemenda vegna hegðunar- aðlögunar- og/eða samskiptaröskunar í samvinnu við foreldra, heimaskóla og önnur úrræði eftir því sem við á.
- Að endurskipuleggja nám og námsaðferðir.
- Að veita foreldrum markvissa uppeldis- og foreldraráðgjöf.
- Að veita Grunnskólum Akureyrar fræðslu og ráðgjöf um málefni markhóps skólans. Nemendur skulu fá tækifæri til þess að nema á sem fjölbreyttastan hátt til þess að hinir ýmsu greindarþættir þeirra fái notið sín. Þeir fá kennslu sem byggir á fjölbreytni og tekur tillit til mismunandi þarfa þeirra.
Skólinn hefur markað sér umhverfisstefnu og leggur áherslu á að umhverfismennt og útinám. Í upphafi og lok hvers skólaárs eru útidagar og fer þá kennsla að mestu fram utandyra og nánasta umhverfi skólans nýtt eins og kostur er.
Leiðarljós
Jákvæð afstaða til manneskjunnar og tiltrú á getu hennar til breytinga og þróunar þar sem leitast skal við að byggja á styrk hvers og eins
Allir hafa hið góða í sér og hæfileikann til að verða betri manneskjur
Hlíðarskóli er innan grunnskólakerfis Akureyrarbæjar fyrir nemendur með verulegan hegðunar- og aðlögunarvanda, félags- og tilfinningaleg vandamál og fjölskyldur þeirra. Hann er tímabundið úrræði sem tekur við þegar reynt hefur verið til þrautar að mæta þörfum nemandans í heimaskóla.