Jólaföndur og eldgos í Skjaldarvík!
Núna er desember genginn í garð og flestir annað hvort komnir (eða alveg að komast) í jólaskap.
Miðvikudagurinn 30. nóvember var með óhefðbundnu sniði. Dagurinn hófst með gæðastund í kennslustofunum eins og vanalega og í kjölfarið byrjaði svokölluð Gong-lestrarstund. Þá fer starfsmaður skólans og spilar ljúfa tóna á Gong sem markar þá upphaf þessarar óvenjulegu lestrarstundar, en þá mega nemendur vera hvar sem er og hvernig sem er innan veggja skólans og lesa í 15 mínútur.
Strax eftir morgunmat tóku allir nemendur skólans sig til og skáru pizza deig í ræmur, fylltu ræmurnar með kanil og vöfðu þær síðan utan um prik, og væru ræmurnar loks grillaðar í eldstæðinu vestan við hús.
Eftir frímínútur fóru nemendur í þá valtíma sem þeir völdu sér vikunni áður, en eftir hádegismat var komið að hápunkti dagsins. Skólinn fylltist þá af mömmum, pöbbum, öfum, ömmum, frændum og frænkum sem áttu góða stund með börnunum við alls kyns jólaföndur. Boðið var upp á að skreyta piparkökur, búa til jólatrés-skraut, smíða sér snjókalla, föndra jólakort og föndrað jólasveina á þvottaklemmur!
Krakkarnir fóru svo með vinum og vandamönnum heim, sátt eftir vel heppnaðan dag!
Í öðrum fréttum er það helst að það hófst eldgos í Skjaldarvík! Aðeins var um vísindaverkefni yngsta stigs að ræða og entust umrædd eldgos ekki nema í stutta stund og sluppu allir ómeiddir frá þeim. Það má með sanni segja að eldgosin (og eldfjöllin sem að yngstu strákarnir unnu hörðum höndum við að búa til), hafi slegið rækilega í gegn!