Sjóræningja kastali
Um miðjan nóvember varð langþráður draumur nemenda skólans að veruleika þegar í notkun var tekinn kastali á skólalóðinni. Nemendur skólans hafa í mörg ár óskað þess að fá stærri leiktæki á svæðið og lögðu meðal annars söfnunarpening sinn í vekefnið fyrir nokkru. Fyrir valinu varð skip og hefur verið virkilega gaman að fylgjast með leik nemenda þar sem skipið nýtist öllum aldri vel.

Nemendur hafa fengist við ýmis verkefni utan þeirra hefðbundnu. Má þar nefna ferð á skauta í íþróttatíma í upphafi mánaðar. Boðið var upp á kynningu á júdó hjá KA í valtíma og fór stór hópur þangað og skemmtu sér vel og tóku vel á því. Hluti nemenda völdu að kynna sér fjölbreytta starfsemi Umhverfismiðstöðvar Akureyrar og fengu þar virkilega góðar móttökur og góða kynningu á þeim fjölmörgu verkefnum sem starfsfólk miðstöðvarinnar sinnir.
Gróðurhúsið er að taka á sig mynd hér á skólalóðinni og hafa flestir nemendur komið að smíði þess. Það verður gaman þegar það verður tilbúið og við getum farið að sækja grænmeti og ber í gróðurhúsið.
Mánudagurinn 1. desember verður undirlagður af jólaundirbúningi. Nemendur vinna að margskonar verkefnum, skreyta skólastofur sínar og nokkrir nemendur fara með honum Gumma í Eymundsson og mála jólamyndir á glugga verslunarinnar. Það verkefni er fyrir löngu búið að festa sig í sessi hér í skólastarfinu og höfum við átt mjög gott samstarf við verslunina í mörg ár.
Klukkan 12.40 til 14.00 verður svo jólaföndur þar sem foreldrum er boðið að koma í skólann eiga notalega stund með börnum sínum, fara á milli og útbúa margskonar fallega muni sem boðið verður upp á að gera. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og taka þátt með börnum sínum.
Hér á þessari slóð má sjá myndir frá skólastarfinu í nóvember.