Stór vika! 13-17 nóvember 2023
Nú er að klárast hjá okkur ansi efnismikil vika. Á þriðjudaginn vorum við með hamborgara í matinn, sem nemendur völdu sér í vikunni á undan, en þá var kosið á milli nokkurra rétta eins og kjúkliarétts, plokkfisk, hálfmána með beikonosti o.fl. Á miðvikudaginn fengum við svo körfuboltakörfurnar sem við erum lengi búin að bíða eftir.
Fimmtudagurinn var dagur íslenskrar tungu og brutum við upp hefðbundið skólahald í nokkrar stöðvar sem nemendur gátu flakkað um á milli. Þá var hægt að velja teiknimyndasögugerð, ljóðasmíði, hlaðvarpsáheyrn, kappsmál orðaleiki og lestrarkrók. Eftir þessar stöðvar voru valtímar og endaði dagurinn hjá okkur kl 12.
Í dag, föstudag, byrjaði dagurinn á Skólaráðsfundi, þar sem farið var yfir fjárhagsskýrslu síðasta árs og skýrslu gæðaráðs, innra mat og umbótaráætlun. Mæting á fundinn var nokkuð góð, 8 nemendur ásamt starfsfólki í Skólaráði. Það helsta var að skólinn var rekinn á fjárhagsáætlun ásamt því að miklar umbætur náðust í innra mati.
Næsta vika verður líka áhugaverð hjá okkur en á mánudaginn er dagur mannréttinda barna og svo á fimmtudaginn höldum við nemendaþing.