Dagur Tónlistarskólans, Útivistardagur og Þorgrímur Þráinsson.

Miðvikudaginn 7. febrúar var dagur tónlistarskólans og fengum við í Hlíðarskóla þá yndislegu upplifun að fá heimsókn frá tónlistarskóla Akureyrar, þar sem var bæði sungið fyrir okkur og spilað á fiðlur.
Fimmtudagurinn 8. febrúar var síðan útivistardagur Hlíðarskóla. Við vorum rosalega heppin með veðrið, pínu kalt en skínandi sól og skýlaust. Skruppum af og til inn til að fá okkur heitt kakó og grillaðar samlokur. Þeir sem ekki vildu fara uppí fjall voru í skólanum að meðan og fengu að elda sinn eiginn morgunmat og hádegismat 😉
Mánudaginn 12. febrúar, bolludag, fengum við í heimsókn Þorgrím Þráinsson, sem flutti fyrirlesturinn „Verum ástfangin af lífinu“ fyrir 8. – 10. bekk okkur til mikillar ánægju. Að sjálfsögðu fengum við bollur eftir hádegismat.

Myndaalbúm

Jólaundirbúningur

Fimmtudaginn 30. nóvember var jólaundirbúningsdagur hjá okkur. Nemendur og starfsmenn tóku upp jólaskraut og skreyttu stofur og ganga fram að hádegi. Eftir morgunmat hoppuðum við út til að grilla okkur nokkra sykurpúða. Eftir hádegi komu foreldrar í heimsókn og fóru ásamt nemendum um stöðvar til að búa til jólaskraut. Myndaalbúm.

Stór vika! 13-17 nóvember 2023

Nú er að klárast hjá okkur ansi efnismikil vika. Á þriðjudaginn vorum við með hamborgara í matinn, sem nemendur völdu sér í vikunni á undan, en þá var kosið á milli nokkurra rétta eins og kjúkliarétts, plokkfisk, hálfmána með beikonosti o.fl. Á miðvikudaginn fengum við svo körfuboltakörfurnar sem við erum lengi búin að bíða eftir.
Fimmtudagurinn var dagur íslenskrar tungu og brutum við upp hefðbundið skólahald í nokkrar stöðvar sem nemendur gátu flakkað um á milli. Þá var hægt að velja teiknimyndasögugerð, ljóðasmíði, hlaðvarpsáheyrn, kappsmál orðaleiki og lestrarkrók. Eftir þessar stöðvar voru valtímar og endaði dagurinn hjá okkur kl 12.
Í dag, föstudag, byrjaði dagurinn á Skólaráðsfundi, þar sem farið var yfir fjárhagsskýrslu síðasta árs og skýrslu gæðaráðs, innra mat og umbótaráætlun. Mæting á fundinn var nokkuð góð, 8 nemendur ásamt starfsfólki í Skólaráði. Það helsta var að skólinn var rekinn á fjárhagsáætlun ásamt því að miklar umbætur náðust í innra mati.
Næsta vika verður líka áhugaverð hjá okkur en á mánudaginn er dagur mannréttinda barna og svo á fimmtudaginn höldum við nemendaþing.

Myndaalbúm

Þemadagar Haust 2023

Miðvikudaginn 20. og fimmtudaginn 21. september voru þemadagar hjá okkur í Hlíðarskóla. Viðfangsefnið í ár var Afríka og voru nokkur lönd kynnt af fjórum hópum.

Hver hópur gerði kynningu um sitt eða sín lönd, sem fjölluðu um menningu, mat, nauðsynjar og aðra skemmtilega punkta, ásamt kahoot spurningakeppni.

Einnig unnu hóparnir listaverk með sínum kynningum, eins og píramída, landakort eða fána. Að lokum var hver hópur með mat frá sínum löndum sem bragðaðist yndislega.

Myndaalbúm.

Upphaf Skólaárs 2023-2024

Skólaárið hefur byrjað vel hér í Hlíðarskóla.
Árleg gönguferð okkar var 24. ágúst. Yngstu nemendur gengu í gegnum Naustaborgir yfir í Kjarnaskóg í fylgd umsjónarkennara, uppeldisfulltrúa og fjölskylduráðgjafa. Aðrir nemendur og starfsfólk gengu saman sem leið lá frá bílastæðinu við Súlumýrar að Fálkafelli. Því næst að Gamla, og endaði allur hópurinn í Kjarnaskógi þar sem tekið var á móti öllum með grilluðum hamborgurum.


Fyrsta september fórum við í siglingu á Húna II. Þar fengum við fræðslu um sjávarlíf og veiddum þó nokkuð af fiskum. Mest var um að nemendur veiddu þorsk en þó komu aðrir fiskar á öngulinn einnig. Í lok ferðarinnar bauð áhöfnin á Húna II öllum upp á grillaðan fisk.


12. september var ákveðið að fara í Golf í íþróttatíma og fengum við að nota Klappir, æfingasvæði GA.
Föstudaginn 15. september unnu allir nemendur saman að sameiginlegu verkefni þar sem þeir leituðu að hlutum i náttúrunni sem byrjuðu á öllum stöfum íslenska stafrófssins. Nóg að gera og nóg framundan, þar sem þemadagar eru að byrja hjá okkur í vikunni.

Myndaalbúm:
Göngudagurinn – 24.08.23
Húni II – 01.09.23
Golfferð í íþróttum – 12.09.23
Dagur Íslenskrar Náttúru – 15.09.23

Samvinna barnanna vegna – fundur foreldra á Akureyri

Mánudaginn 15. maí kl. 20.15 verður haldinn fundur í Háskólanum á Akureyri um mikilvægi samvinnu foreldra fyrir velferð barna. Um er að ræða fræðslufund fyrir foreldra og forsjáraðila barna á vegum landssamtakanna Heimilis og skóla fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Leitað verður svara við spurningum á borð við: Hvernig get ég sem foreldri lagt mitt að mörkum til að auka vellíðan barnsins míns og skiptir samvinna foreldra máli þegar kemur að farsæld barnanna okkar?

Foreldrar og forsjáraðilar barna í bænum eru hvattir til að mæta á fundinn sem haldinn verður í hátíðarsal Háskólans á Akureyri mánudaginn 15. maí frá kl. 20.15 til 21.30. Fundurinn verður einnig aðgengilegur í streymi fyrir þá sem ekki komast en til að fá link þarf að skrá sig með netfangi.

Skráning er í gegnum þennan hlekk

Viðburðurinn á Facebook.

Árshátíð! (og 1. maí hlaup)

Föstudaginn 28. apríl hélt skólinn uppá árshátíð sína. Til að fagna deginum voru nemendur búnir að æfa leikritið Kardemommu­bærinn og fluttu það fyrir gesti eftir hádegi á föstudaginn. Einnig voru sýndir „scetchar“ og staffagrín. Viðbrögð allra voru yndisleg, enda mikið til að hafa gaman af. Deginum lauk svo með veitingum og kveðjum. Hér fyrir neðan er myndaalbúm af deginum. Einnig má nefna að 55% nemenda mættu og tóku þátt í fyrsta maí hlaupinu og var okkar skóli hlutfallslega með bestu mætingu allra skóla sem tóku þátt. Við erum ekkert smá stolt af okkar nemendum og þökkum fyrir stuðninginn, bæði í kringum árshátíðina og 1. maí hlaupið.

1 2