Hrekkjavaka

Haldið var upp á hrekkjavöku með pompi og prakt 31.október. Nemendur skreyttu stofur sínar með köngulóarvef, draugum, afsöguðum höndum og öðru sem þeim þótti tilheyra.

Á hrekkjavöku er brugðið út frá hefðbundinni kennslu og boðið upp á annarskonar nám. Sú hefð hefur skapast að starfsfólk setur upp draugahús sem nemendum er boðið upp á að fara í að morgni hrekkjavöku. Að þessu sinni var draugahúsið sett upp í kjallara Skjaldarvíkurhótelsins og voru mismunandi þemu í hverju herbergi. Bjarki tónlistarkennari bjó til hrollvekjandi hljóðskrá sem spiluð var á meðan nemendur gengu um. Sumum þótti nógu ógnvænlegt að fara inn í þetta stóra hús sem stendur autt á skólalóðinni. Aðrir voru kokhraustir og sögðu þetta ekkert mál og þeim hefði ekkert brugðið. Þau sem vildu fengu fylgd í gegnum svæðið. Óhætt er að segja að draugahúsið hafi hitt í mark hjá flestum nemendum og höfðu öll gaman af, jafnt starfsfólk sem nemendur. Allt starfsfólk mætti í búningum og flestir nemendur að auki. Boðið var upp á andlitsmálningu fyrir þau sem það vildu.

Krakkarnir fengu svo að kryfja þau dýra innyfli sem notuð voru í draugahúsinu í framhaldi af deginum.