Nemendaþing 11.maí

Þann 11.maí fór fram nemendaþing hér í Hlíðarskóla. Nemendum var skipt í 4 hópa þvert á aldur og var hverjum hóp skipaður borðstjóri sem var kennari. Borðstjórinn bar upp umræðuefnið og sá til þess að allir fengu jöfn tækifæri til þess að tjá þig. Borðstjóri sá einnig um að skrifa niður allt sem kom fram hjá hópunum. Tilgangurinn með nemendaþinginu var að gefa nemendum vettvang til að láta ljós skoðanir sýnar á hin ýmsu málefni tengdu skólastarfi Hlíðarskóla. Gögnunum  verður síðan safnað saman, þau yfirfarin og notuð til að bæta skólastarf Hlíðarskóla. Við viljum þakka nemendum fyrir frábæra vinnu á nemendaþinginu og hlökkum til að hefjast handa að vinna úr þeim punktum sem komu fram til að efla og bæta skólastarfið.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af hópunum.

Þemadagar og bikaravika.

Það hefur aldeilis margt á daga okkar drifið undanfarnar tvær vikur. Í seinustu viku fóru Þemadagarnir fram og gerðum við margt skemmtilegt í tilefni þeirra. Þeir viðburðir sem voru á dagskrá voru:

  1. Vorleikarnir
  2. Áheitahlaup
  3. Ferð í Krossanesborgir
  4. Bátakeppnin

Á þriðjudeginum 16. maí hófst ballið með hefðbundinni kennslu og morgunmat. Loks var komið að Vorleikunum, en um er að ræða níu þrautir sitt hvorum megin við frímínútur sem að nemendurnir þurftu að leysa og safna stigum. Sá eða sú sem endar daginn með flest stig fær nafn sitt áletrað á glæsilegan Vorleikabikar.

Þrautirnar voru:

Fyrri helmingur:

  1. Armbeygjur
  2. Jenga
  3. Heilabrot og þrautir
  4. Sprettur
  5. Pottkast
  6. Frisbígolf
  7. Olsen
  8. Sushi
  9. Bollabolti

Seinni helmingur:

  1. Burpees
  2. Skákþrautir
  3. Vítaskot (körfubolti)
  4. Sipp
  5. Vísnagátur
  6. Fötuhald
  7. Stígvélakast
  8. Peppið
  9. Umstafla glösum

Vorleikarnir enduðu þannig að í efsta sæti varð hann Ágúst, í öðru sæti var Óðinn og þriðja sæti Aron E. Til hamingju strákar!

Hér að neðan má sjá myndir frá ýmsum þrautum.

Eftir hádegismat var komið að áheitahlaupinu. Það hefur skapast sú hefð hér í Hlíðarskóla að undir lok hvers skólaárs safni nemendur áheitum til styrktar ákveðins góðgerðafélags. Nemendurnir hlupu eins og fætur toguðu, en að þessu sinni var ákveðið að heita á Krabbameinsfélagið. Það gekk (og hljóp) eins og í sögu. Um þessar mundir er verið að fara yfir bókhaldið en ekki er komin niðurstaða um nákvæma upphæð sem safnaðist. Við viljum þakka öllum aðstandendum sem lögðu hönd á plóg innilega fyrir!

Hér koma nokkrar myndir frá hlaupinu.

Miðvikudagurinn 17. maí var engu síðri. Eftir snemmbúinn morgunmat var förinni heitið í Krossanesborgir þar sem nemendum var skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn virti fyrir sér náttúruna og bar kennsl á ýmis náttúruleg og söguleg fyrirbæri, t.a.m. fjöllin sem umlykja okkar fallega fjörð, grettistök, skófir, hvalbök, jökulrákir, plöntur og fleira sem þar er að finna. Hinn hópurinn fekk sér göngutúr í fuglakofann og fræðslu um allt fuglalífið sem þrífst í þessari náttúruparadís.

Eftir hádegismat sama dag var komið að bátakeppninni vinsælu. Nemendur höfðu vikurnar á undan unnið hörðum höndum við að hanna hinn fullkomna bát sem gæti skotið „Gulu Þrumunni“ ref fyrir rass. Gula Þruman er bátur sem er hannaður og fínpússaður af starfsmanni skólans og hafði unnið undanfarin þrjú ár í röð. Keppnin í ár endaði á svipuðum nótum, því að Gula Þruman hrósaði sigri í enn eitt skiptið! Þegar betur var að gáð ákváðu dómararnir að brögð hefðu verið í tafli, enda ósanngjarnt að slíkur svindlbátur sé notaður í eins drengilegri keppni og bátakeppnin er. Gula Þruman var því dæmd úr leik, en þó var það aðallega vegna þess að skipstjórinn var ekki með réttindi til þátttöku. Sorrý Valdimar…

Í hópi nemenda voru tveir sem komu hnífjafnir í mark, en það voru þeir Darri og Ágúst! How a‘bát that? Aron M hreppti síðan bronsið.
Til hamingju strákar!

Að lokum er vert að minnast á annars konar verðlaunaafhendingu sem fór fram á miðvikudeginum. Þá heimsótti okkur hún Jóna Finndís, formaður UFA, til að afhenda skólanum bikar. Ástæðan er sú að Hlíðarskóli var með hæsta þátttökuhlutfall nemenda meðal þeirra grunnskóla Akureyrar sem tóku þátt í 1. maí hlaupinu, en 55% nemenda mættu og tóku þátt! Magnaðir…

Við erum rosalega stolt af krökkunum fyrir að gera dagana eins skemmtilega og raun ber vitni.

Til hamingju aftur öll sömul!

Hér að neðan má sjá myndir af verðlaunahöfum vikunnar, en allir nemendurnir voru sigurvegarar.

Samvinna barnanna vegna – fundur foreldra á Akureyri

Mánudaginn 15. maí kl. 20.15 verður haldinn fundur í Háskólanum á Akureyri um mikilvægi samvinnu foreldra fyrir velferð barna. Um er að ræða fræðslufund fyrir foreldra og forsjáraðila barna á vegum landssamtakanna Heimilis og skóla fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Leitað verður svara við spurningum á borð við: Hvernig get ég sem foreldri lagt mitt að mörkum til að auka vellíðan barnsins míns og skiptir samvinna foreldra máli þegar kemur að farsæld barnanna okkar?

Foreldrar og forsjáraðilar barna í bænum eru hvattir til að mæta á fundinn sem haldinn verður í hátíðarsal Háskólans á Akureyri mánudaginn 15. maí frá kl. 20.15 til 21.30. Fundurinn verður einnig aðgengilegur í streymi fyrir þá sem ekki komast en til að fá link þarf að skrá sig með netfangi.

Skráning er í gegnum þennan hlekk

Viðburðurinn á Facebook.

Árshátíð! (og 1. maí hlaup)

Föstudaginn 28. apríl hélt skólinn uppá árshátíð sína. Til að fagna deginum voru nemendur búnir að æfa leikritið Kardemommu­bærinn og fluttu það fyrir gesti eftir hádegi á föstudaginn. Einnig voru sýndir „scetchar“ og staffagrín. Viðbrögð allra voru yndisleg, enda mikið til að hafa gaman af. Deginum lauk svo með veitingum og kveðjum. Hér fyrir neðan er myndaalbúm af deginum. Einnig má nefna að 55% nemenda mættu og tóku þátt í fyrsta maí hlaupinu og var okkar skóli hlutfallslega með bestu mætingu allra skóla sem tóku þátt. Við erum ekkert smá stolt af okkar nemendum og þökkum fyrir stuðninginn, bæði í kringum árshátíðina og 1. maí hlaupið.

Mikill Mars

Margt búið að gera í gangi hjá okkur í mars mánuði. Ljósmyndakeppni, ljóðasmiðja, kökugerð, gluggamálun og margt annað skemmtilegt. Hér fyrir neðan má sjá myndaalbúm frá þessum viðburðum okkar.

Ljósmyndakeppni:
Hlíðarskóli hélt ljósmyndakeppni þar sem nemendur fengu málshætti og áttu að túlka þá í myndaformi. Veittar voru medalíur fyrir bestu myndina, bestu túlkun og bestu seríuna. Myndaalbúm til vinstri sýnir málshætti og túlkun hópa og myndaalbúm til hægri sýnir myndir af verðlaunaafhendingu. Allir hópar fengu sleikjó í þáttökuverðlaun.

Gluggamálun í Eymundsson – Andrésar Andar leikarnir:
Síðustu vikur voru nemendur að vinna að því að undirbúa listaverk fyrir gluggamálun. Fimmtudaginn 30. mars fór síðan hópur nemenda ásamt Ólafi myndlistakennara í Pennan til að mála valin listaverk nemenda á gluggana.

Nemendur unnu að ljóðasmíði í mánuðinum, þar sem þau völdu sér dægurlag, prentuðu út textann og klipptu út orðin. Síðan áttu þau að semja sitt eigið ljóð úr þeim orðum sem þau klipptu út. Nemendur bökuðu skúffukökur í vali á fimmtudeginum 30. mars og voru nokkur ljóð valin af handahófi til að skreyta kökurnar.

Auðvitað var margt annað gert í mánuðinum sem ekki tókst að ná á mynd. Ljóðaföndirð sjálft, valtímar í skák var mjög vinsælt, sundleikfimi og sundleikir ásamt mörgu öðru sniðugu í öllum tímum skólans. Að lokum sendum við, Starfsfólk Hlíðarskóla, kærar páskakveðjur til allra.

Opinn skólaráðsfundur

Opinn skólaráðsfundur 27.02.2023
Mætt voru: Valdimar (skólastjóri), Ólafur (kennari), Anton (uppeldisfulltrúi) og Lilja (foreldri), fulltrúar nemenda voru báðir frá skóla þennan dag.

Ákveðið var að afgreiða skóladagatal fyrir 2023-2024 á fundinum þar sem skóladagatöl þurfa að berast fræðslu og lýðheilsusviði fyrir mánaðarmót. Farið var yfir skóladagatalið til að ganga úr skugga um að fjöldi daga væru réttir. Við yfirferð var ákveðið að leggja til að bæta við einum uppbrotsdegi. Þeir geta mest verið 10 talsins en eru 9 á því dagatali sem lagt var fyrir. Valdimar mun leggja tillöguna fyrir kennara á morgun þriðjudaginn 28.02.2023 og senda síðan á fræðslu og lýðheilsusvið að því loknu. Allir greiddu atkvæði með tillögunni.

Valdimar bar þá upp aðra tillögu. Þar sem vantaði báða nemendurna í skólaráðið að þá var lagt til að fresta þeim fundarefnum sem voru eftir á fundinum og boða nýjan fund við fyrsta tækifæri. Mikilvægt væri að nemendur í skólaráði myndu sitja fundinn þegar ræða ætti skólalóðina þar sem sterkt ákall hefur verið frá nemendum skólans að aðstaðan á útisvæðinu verði bætt.

Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum og mun Valdimar sjá um að boða nýjan fund við fyrsta tækifæri.

Fundi slitið í kjölfarið.

Sprengjum bollur og allt í ösku…

Þessa vikuna fagna börn landsins bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Hér í Hlíðarskóla héldum við uppá bolludaginn með fiskibollur í aðalrétt og rjómabollur í eftirrétt. Þar sem starfsdagur er á öskudegi, héldum við uppá öskudaginn og sprengidag saman. Fyrir hádegi fengu börnin að ganga á milli stöðva og syngja, og fengu nammi að launum. Í hádeginu var svo náttúrulega saltkjöt í baunsúpu. Hér fyrir neðan má sjá myndir af því sem gekk um ganga skólans fyrir hádegi (og ein bollumynd).

Lífshlaupið

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni íþrótta- og Ólympíusambands íslands sem höfðar til allra aldurhópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta.

Tekið af síðu Líflshlaupsins.

Starfsmenn Hlíðarskóla tóku vissulega þátt í lífshlaupinu og hélt Hlíðarskóli sína eigin Lífshlaupskeppni fyrir nemendur, þar sem veitt var verðlaun fyrir þrjú efstu nemendasætin og sér verðlaun fyrir þá stofu sem náði hæðst. Hér fyrir neðan má sjá myndir af verðlaunahöfum.

Styrkur Norðurorku til samfélagsverkefna 2023

Hlíðarskóli fékk úthlutað styrk frá Norðurorku 26. janúar sl. og erum við afskaplega þakklát.

Alls bárust 125 umsóknir og var Hlíðarskóli einn af 58 verkefnum sem fengu styrk.

Hlíðarskóli er eini sérskóli Akureyrarbæjar og leggjum við  mikla áherslu á að nemendur okkar fá kennslu sem byggir á fjölbreytni og tekur tillit til mismunandi þarfa nemenda okkar.
Við munum því nota styrkinn til kaupa á búnaði til kennslu og sköpunar sem fylgir ekki hefðbundnu skólastarfi

Meðfylgjandi er frétt um styrkafhendinguna

Styrkir Norðurorku til samfélagsverkefna 2023 | Norðurorka

Signý Valdimarsdóttir tekur hér við styrknum fyrir hönd Hlíðarskóla. Eyþór Björnsson, forstjóri hjá Norðurokru, afhendir.
1 2 3 4 11