Fimmtudaginn 23. nóvember var haldið nemendaþyng, þar sem nemendur fengu tækifæri til að ræða saman hvernig þau myndu vilja bæta skólann og námið sitt og var ýmislegt rætt. Einnig var grillað kanilbrauð yfir eldi í góðum félagsskap. Myndaalbúm.
Nú er að klárast hjá okkur ansi efnismikil vika. Á þriðjudaginn vorum við með hamborgara í matinn, sem nemendur völdu sér í vikunni á undan, en þá var kosið á milli nokkurra rétta eins og kjúkliarétts, plokkfisk, hálfmána með beikonosti o.fl. Á miðvikudaginn fengum við svo körfuboltakörfurnar sem við erum lengi búin að bíða eftir. Fimmtudagurinn var dagur íslenskrar tungu og brutum við upp hefðbundið skólahald í nokkrar stöðvar sem nemendur gátu flakkað um á milli. Þá var hægt að velja teiknimyndasögugerð, ljóðasmíði, hlaðvarpsáheyrn, kappsmál orðaleiki og lestrarkrók. Eftir þessar stöðvar voru valtímar og endaði dagurinn hjá okkur kl 12. Í dag, föstudag, byrjaði dagurinn á Skólaráðsfundi, þar sem farið var yfir fjárhagsskýrslu síðasta árs og skýrslu gæðaráðs, innra mat og umbótaráætlun. Mæting á fundinn var nokkuð góð, 8 nemendur ásamt starfsfólki í Skólaráði. Það helsta var að skólinn var rekinn á fjárhagsáætlun ásamt því að miklar umbætur náðust í innra mati. Næsta vika verður líka áhugaverð hjá okkur en á mánudaginn er dagur mannréttinda barna og svo á fimmtudaginn höldum við nemendaþing.
Gunni og Felix komu í heimsókn til okkar 17. október. Felix talaði við okkur um hvað við værum í raun eins stór fjölskylda, öll sömul, á meðan Gunni fræddi okkur um hvernig við ættum að skrifa sögur. Saman fluttu þeir fyrir okkur 3 lög ásamt dönsum og nutum við öll heimsókn þeirra. Myndaalbúm
Miðvikudaginn 20. og fimmtudaginn 21. september voru þemadagar hjá okkur í Hlíðarskóla. Viðfangsefnið í ár var Afríka og voru nokkur lönd kynnt af fjórum hópum.
Hver hópur gerði kynningu um sitt eða sín lönd, sem fjölluðu um menningu, mat, nauðsynjar og aðra skemmtilega punkta, ásamt kahoot spurningakeppni.
Einnig unnu hóparnir listaverk með sínum kynningum, eins og píramída, landakort eða fána. Að lokum var hver hópur með mat frá sínum löndum sem bragðaðist yndislega.
Kæru foreldrar / forráðamenn leik- og grunnskólanemenda á Akureyri
Eins og mörgum er kunnugt, þá stendur yfir innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Nú er kominn nýr og aðgengilegur vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér og hvert hlutverk tengiliða er. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innibera.
Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.
Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Á heimasíðu skólans, Farsæld barna – Hlíðarskóli Akureyri (hlidarskoli.is) má sjá hver hefur hlutverk sem tengiliður í Hlíðarskóla. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni. Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar.
Með góðri farsældarkveðju,
Helga Vilhjálmsdóttir, innleiðingarstjóri farsældarlaga á fræðslu- og lýðheilsusviði
Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs
Skólaárið hefur byrjað vel hér í Hlíðarskóla. Árleg gönguferð okkar var 24. ágúst. Yngstu nemendur gengu í gegnum Naustaborgir yfir í Kjarnaskóg í fylgd umsjónarkennara, uppeldisfulltrúa og fjölskylduráðgjafa. Aðrir nemendur og starfsfólk gengu saman sem leið lá frá bílastæðinu við Súlumýrar að Fálkafelli. Því næst að Gamla, og endaði allur hópurinn í Kjarnaskógi þar sem tekið var á móti öllum með grilluðum hamborgurum.
Fyrsta september fórum við í siglingu á Húna II. Þar fengum við fræðslu um sjávarlíf og veiddum þó nokkuð af fiskum. Mest var um að nemendur veiddu þorsk en þó komu aðrir fiskar á öngulinn einnig. Í lok ferðarinnar bauð áhöfnin á Húna II öllum upp á grillaðan fisk.
12. september var ákveðið að fara í Golf í íþróttatíma og fengum við að nota Klappir, æfingasvæði GA. Föstudaginn 15. september unnu allir nemendur saman að sameiginlegu verkefni þar sem þeir leituðu að hlutum i náttúrunni sem byrjuðu á öllum stöfum íslenska stafrófssins. Nóg að gera og nóg framundan, þar sem þemadagar eru að byrja hjá okkur í vikunni.
Þann 11.maí fór fram nemendaþing hér í Hlíðarskóla. Nemendum var skipt í 4 hópa þvert á aldur og var hverjum hóp skipaður borðstjóri sem var kennari. Borðstjórinn bar upp umræðuefnið og sá til þess að allir fengu jöfn tækifæri til þess að tjá þig. Borðstjóri sá einnig um að skrifa niður allt sem kom fram hjá hópunum. Tilgangurinn með nemendaþinginu var að gefa nemendum vettvang til að láta ljós skoðanir sýnar á hin ýmsu málefni tengdu skólastarfi Hlíðarskóla. Gögnunum verður síðan safnað saman, þau yfirfarin og notuð til að bæta skólastarf Hlíðarskóla. Við viljum þakka nemendum fyrir frábæra vinnu á nemendaþinginu og hlökkum til að hefjast handa að vinna úr þeim punktum sem komu fram til að efla og bæta skólastarfið.
Það hefur aldeilis margt á daga okkar drifið undanfarnar tvær vikur. Í seinustu viku fóru Þemadagarnir fram og gerðum við margt skemmtilegt í tilefni þeirra. Þeir viðburðir sem voru á dagskrá voru:
Vorleikarnir
Áheitahlaup
Ferð í Krossanesborgir
Bátakeppnin
Á þriðjudeginum 16. maí hófst ballið með hefðbundinni kennslu og morgunmat. Loks var komið að Vorleikunum, en um er að ræða níu þrautir sitt hvorum megin við frímínútur sem að nemendurnir þurftu að leysa og safna stigum. Sá eða sú sem endar daginn með flest stig fær nafn sitt áletrað á glæsilegan Vorleikabikar.
Þrautirnar voru:
Fyrri helmingur:
Armbeygjur
Jenga
Heilabrot og þrautir
Sprettur
Pottkast
Frisbígolf
Olsen
Sushi
Bollabolti
Seinni helmingur:
Burpees
Skákþrautir
Vítaskot (körfubolti)
Sipp
Vísnagátur
Fötuhald
Stígvélakast
Peppið
Umstafla glösum
Vorleikarnir enduðu þannig að í efsta sæti varð hann Ágúst, í öðru sæti var Óðinn og þriðja sæti Aron E. Til hamingju strákar!
Hér að neðan má sjá myndir frá ýmsum þrautum.
Eftir hádegismat var komið að áheitahlaupinu. Það hefur skapast sú hefð hér í Hlíðarskóla að undir lok hvers skólaárs safni nemendur áheitum til styrktar ákveðins góðgerðafélags. Nemendurnir hlupu eins og fætur toguðu, en að þessu sinni var ákveðið að heita á Krabbameinsfélagið. Það gekk (og hljóp) eins og í sögu. Um þessar mundir er verið að fara yfir bókhaldið en ekki er komin niðurstaða um nákvæma upphæð sem safnaðist. Við viljum þakka öllum aðstandendum sem lögðu hönd á plóg innilega fyrir!
Hér koma nokkrar myndir frá hlaupinu.
Miðvikudagurinn 17. maí var engu síðri. Eftir snemmbúinn morgunmat var förinni heitið í Krossanesborgir þar sem nemendum var skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn virti fyrir sér náttúruna og bar kennsl á ýmis náttúruleg og söguleg fyrirbæri, t.a.m. fjöllin sem umlykja okkar fallega fjörð, grettistök, skófir, hvalbök, jökulrákir, plöntur og fleira sem þar er að finna. Hinn hópurinn fekk sér göngutúr í fuglakofann og fræðslu um allt fuglalífið sem þrífst í þessari náttúruparadís.
Eftir hádegismat sama dag var komið að bátakeppninni vinsælu. Nemendur höfðu vikurnar á undan unnið hörðum höndum við að hanna hinn fullkomna bát sem gæti skotið „Gulu Þrumunni“ ref fyrir rass. Gula Þruman er bátur sem er hannaður og fínpússaður af starfsmanni skólans og hafði unnið undanfarin þrjú ár í röð. Keppnin í ár endaði á svipuðum nótum, því að Gula Þruman hrósaði sigri í enn eitt skiptið! Þegar betur var að gáð ákváðu dómararnir að brögð hefðu verið í tafli, enda ósanngjarnt að slíkur svindlbátur sé notaður í eins drengilegri keppni og bátakeppnin er. Gula Þruman var því dæmd úr leik, en þó var það aðallega vegna þess að skipstjórinn var ekki með réttindi til þátttöku. Sorrý Valdimar…
Í hópi nemenda voru tveir sem komu hnífjafnir í mark, en það voru þeir Darri og Ágúst! How a‘bát that? Aron M hreppti síðan bronsið. Til hamingju strákar!
Að lokum er vert að minnast á annars konar verðlaunaafhendingu sem fór fram á miðvikudeginum. Þá heimsótti okkur hún Jóna Finndís, formaður UFA, til að afhenda skólanum bikar. Ástæðan er sú að Hlíðarskóli var með hæsta þátttökuhlutfall nemenda meðal þeirra grunnskóla Akureyrar sem tóku þátt í 1. maí hlaupinu, en 55% nemenda mættu og tóku þátt! Magnaðir…
Við erum rosalega stolt af krökkunum fyrir að gera dagana eins skemmtilega og raun ber vitni.
Til hamingju aftur öll sömul!
Hér að neðan má sjá myndir af verðlaunahöfum vikunnar, en allir nemendurnir voru sigurvegarar.
Mánudaginn 15. maí kl. 20.15 verður haldinn fundur í Háskólanum á Akureyri um mikilvægi samvinnu foreldra fyrir velferð barna. Um er að ræða fræðslufund fyrir foreldra og forsjáraðila barna á vegum landssamtakanna Heimilis og skóla fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Leitað verður svara við spurningum á borð við: Hvernig get ég sem foreldri lagt mitt að mörkum til að auka vellíðan barnsins míns og skiptir samvinna foreldra máli þegar kemur að farsæld barnanna okkar?
Foreldrar og forsjáraðilar barna í bænum eru hvattir til að mæta á fundinn sem haldinn verður í hátíðarsal Háskólans á Akureyri mánudaginn 15. maí frá kl. 20.15 til 21.30. Fundurinn verður einnig aðgengilegur í streymi fyrir þá sem ekki komast en til að fá link þarf að skrá sig með netfangi.