Jólaföndur og eldgos í Skjaldarvík!

Núna er desember genginn í garð og flestir annað hvort komnir (eða alveg að komast) í jólaskap.

Miðvikudagurinn 30. nóvember var með óhefðbundnu sniði. Dagurinn hófst með gæðastund í kennslustofunum eins og vanalega og í kjölfarið byrjaði svokölluð Gong-lestrarstund. Þá fer starfsmaður skólans og spilar ljúfa tóna á Gong sem markar þá upphaf þessarar óvenjulegu lestrarstundar, en þá mega nemendur vera hvar sem er og hvernig sem er innan veggja skólans og lesa í 15 mínútur.

Strax eftir morgunmat tóku allir nemendur skólans sig til og skáru pizza deig í ræmur, fylltu ræmurnar með kanil og vöfðu þær síðan utan um prik, og væru ræmurnar loks grillaðar í eldstæðinu vestan við hús.

Eftir frímínútur fóru nemendur í þá valtíma sem þeir völdu sér vikunni áður, en eftir hádegismat var komið að hápunkti dagsins. Skólinn fylltist þá af mömmum, pöbbum, öfum, ömmum, frændum og frænkum sem áttu góða stund með börnunum við alls kyns jólaföndur. Boðið var upp á að skreyta piparkökur, búa til jólatrés-skraut, smíða sér snjókalla, föndra jólakort og föndrað jólasveina á þvottaklemmur!

Krakkarnir fóru svo með vinum og vandamönnum heim, sátt eftir vel heppnaðan dag!

Í öðrum fréttum er það helst að það hófst eldgos í Skjaldarvík! Aðeins var um vísindaverkefni yngsta stigs að ræða og entust umrædd eldgos ekki nema í stutta stund og sluppu allir ómeiddir frá þeim. Það má með sanni segja að eldgosin (og eldfjöllin sem að yngstu strákarnir unnu hörðum höndum við að búa til), hafi slegið rækilega í gegn!

Jólagluggamálun

í síðustu viku fóru nemendur úr Hlíðarskóla tvær ferðir, á mánudegi og fimmtudegi, í Pennann Eymundsson til að mála glugga þar. Síðustu 14-15 ár hefur Hlíðarskóli verið í samstarfi við Pennan Eymundsson að skreyta glugga þar fyrir jólin og hefur Ólafur Sveinsson, mynd- og handmenntakennari Hlíðarskóla, staðið fyrir og stýrt verkefninu. Í ár urðu íslensku jólasveinarnir fyrir valinu og fengu Gríla og Leppalúði að fylgja með, ásamt jólakettinum. Við gerð þeirra var horft til ýmissa fyrri túlkana á þeim félögum, svo sem MS jólasveina og annara. Allar myndirnar eru gerðar fríhendis útí skóla á maskínupappír. Myndirnar voru svo límdar utan á gluggana og málaðar/litaðar með Posca-pennum á gluggana, teknar í gegn á glerið.

Þeir Nemendur sem unni verkið eru:

  • Axel Dusan Þorgeirsson                                 
  • Aron Máni Björnsson                                  
  • Ágúst Hrafn Árnason                                    
  • Egill Ingimar Þórarinsson                      
  • Héðinn Dagur Bjarnason                           
  • Logi Már Ragnarsson
  • Sigurður Elí Ólafsson

Aðrir höfundar mynda:

  • Auðunn Frans Auðunsson
  • Hartmann Logi Stefaníuson
  • Þórhallur Darri Sigurjónsson
  • Matthías Óli Hinriksson

Við vonum að sem flestir fari og sjái skreytingarnar í Pennanum.

Að lokum læt ég fylgja kveðju af því plaggi sem fylgir með myndunum.

Takk fyrir okkur. Megið þið njóta skammdegisins og hátíðana er þær upp renna.

Ólafur Sveinsson

Dagur íslenskrar tungu

Í dag var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur víða um land. Hér í skólanum ákváðum við að tengja daginn sérstaklega við þá Jón Stefán og Ármann Sveinssyni, gjarnan þekktir sem Nonni og Manni. Var það gert vegna þess að Nonni fæddist einmitt 16. nóvember árið 1857, og líka vegna þess að núna eru 100 ár liðin frá því að fyrsta bókin eftir hann var þýdd á íslensku.

Dagurinn var stútfullur af dagskrá. Hann byrjaði með gæðastund eins og venjan er, en klukkan 8:30 safnaðist allur skólinn saman í matsalnum til að hlýða á hana Rögnu frá Minjasafninu sem sagði okkur ýmislegt um sögu þeirra Nonna og Manna, auk þess sem hún sýndi okkur m.a. myndir af Nonna, skólafélögum hans og af Akureyri forðum daga.

Að loknum morgunmat var skipt liði. Helmingur skólans, eða hópur A, fór á Möðruvelli og Skipalón á meðan að hinn helmingurinn, hópur B, horfði á fyrsta hluta af Nonna og Manna sjónvarpsþáttunum. Þegar fyrri frímínútum lauk fór hópur B svo á Möðruvelli á meðan að hópur A horfði á fyrsta þátt í matsalnum.

Því næst tók hádegismaturinn við. Í dag var boðið upp á Schnitzel sem vakti mikla lukku meðal nemenda og höfðu sumir orð á því að kjötið væri sérstaklega mjúkt og ljúffengt. Boðið var upp á hrásalat, kartöflur og brúna sósu með. Orðið „schnitzel“ á einmitt uppruna sinn að rekja til þýsku, og það sama má segja um þættina sem við horfðum á í dag, en þeir voru upprunalega teknir upp á þýsku! Það var þó einungis skemmtileg tilviljun að Schnitzel hafi verið í boði í dag.

Eftir hádegismat og frímínútur horfði hópur B á þátt nr. 2 af þeim Nonna og Manna, á meðan að hópur A fékk það verðuga verkefni að mála heimskortið upp á vegg í matsalnum. Hópur B fékk svo að merkja alla þá staði sem Nonni heimsótti á ævi sinni og kortleggja för hans með snæri. Voru margir mjög hissa að nú ættu þeir að mála (hvert) skrapp’ann á vegginn, enda tækifæri sem gefst ekki oft.

Það má alveg segja að dagurinn hafi heppnast alveg einstaklega vel og voru nemendur, jafnt sem starfsfólk, hæstánægt með hann.

Hrekkjavaka

Við héldum upp á hrekkjavökuna 31.október s.l. og tókst það einstaklega vel.

Starfsfólk og margir nemendur mættu í búningum sem setti skemmtilegan svip á daginn.

Dagurinn byrjaði á gæðastund en síðan tók alvaran við og fóru nemendur í gegnum draugahús. Nemendur gátur ráðið hvort þeir færu einir eða í fylgd með starfsmanni. Í morgunmatnum var boðið upp á grænan hafragraut ásamt því morgunkorni sem er yfirleitt í boði. Eftir morgunmatinn var spilað Bingo og farið í allskonar leiki. Eftir hádegismatinn var horft á hrekkjavöku bíómynd og var boðið upp á popp. Frábær dagur í alla staði.

Hér koma nokkrar myndir frá deginum.

Mynd úr draugahúsinu

Græni hafragrauturinn

Oddný bakaði hrekkjavökuköku.

Oddný með glæsilega köku.,

Bingó

Glæsilegur hópur starfsfólk sem lagði mikið á sig til að gera daginn sem skemmtilegastan fyrir nemendur.

Hvar er valli?

Vikan 24-28. október.

Jæja þá er enn ein vikan runnin sitt skeið og óhætt að segja að vikan hafi gengið nokkuð vel fyrir sig.

Ýmislegt hefur verið gert t.d. í gær vorum við með valtíma tengdu Halloween föndri og skemmtu nemendur sér konunglega. Skólinn keypti síðan fjögur grasker og fékk hver stofa eitt til þess að skera út og gera eftir sínu höfði.

Starfsfólk hefur verið í óða önn að græja drauga hús fyrir mánudaginn sem verður síðan partur af Halloween deginum okkar. Einnig ætlum við að spila Bingó og gera margt skemmtilegt í tilefni dagsins.
Látum nokkrar myndir fylgja frá vikunni sem er að líða.

Skólablaðið í tilefni 40 ára afmælis Hlíðarskóla

Þá er skólablaðið okkar komið á vefinn. Blaðið var partur af þemavinnu sem fór fram í aðdraganda 40 ára afmæli Hlíðarskóla.

Nemendur fengu frjálsar hendur með efnisval fyrir blaðið og varð þetta útkoman.

Við erum afskaplega stolt af blaðinu okkar og vonum að þið hafið gagn og gaman af.

https://drive.google.com/file/d/1LWUHWP1F4asCCk3yq5-QgDGRG2GOKRjW/view?usp=sharing

BBQ rif og franskar

Miðvikudagurinn 19.október réðu nemendur hvað var í matinn. Fyrir valinu varð BBQ rif og franskar.

Gríðarleg ánægja var með þetta uppbrot í skólanum og hafði einn nemandi orð á því að líklega væri Styrmir besti kokkur í heimi.

Það var gaman að geta komið til móts við okkar frábæru nemendur og munum við gera þetta aftur á næstu önn.

Hér koma nokkrar myndir frá hádeginu.

Bleikur dagur í Hlíðarskóla

Í dag föstudaginn 14.október var bleikur dagur í Hlíðarskóla.
Margir mættu í einhverju bleiku en það var alveg valfrjálst.
Boðið var upp á að fá bleikt sprey í hárið eða bleikt naglalakk fyrir þá sem vildu.
Í morgunmatnum var hefðbundin morgunmatur en með köku í eftirrétt með fallegu bleiku skrauti ásamt bleikum djús í tilefni dagsins.

Yndislegur dagur með okkar nemendum og förum við svo sannarlega ánægð inn í helgina.
Hérna koma nokkrar myndir sem teknar voru í morgunmatnum.

Foreldrafundur 12.10

Fundur var haldin með foreldrum í Hlíðarskóla miðvikudaginn 12.10 klukkan 16:30.

Góð mæting var á fundinn og þökkum við öllum þeim sem mættu.

Varið var yfir helstu atriði og hvernig hefur gengið það sem af er vetri. Við náðum að stofna foreldrafélag fyrir eldri og yngri deild sem er gríðarlega jákvætt og mun bara efla skólastarfið.

Hlökkum til samstarfsins með ykkur í vetur 🙂

1 2 3 4 5 11