Þemadagar og bikaravika.
Það hefur aldeilis margt á daga okkar drifið undanfarnar tvær vikur. Í seinustu viku fóru Þemadagarnir fram og gerðum við margt skemmtilegt í tilefni þeirra. Þeir viðburðir sem voru á dagskrá voru:
- Vorleikarnir
- Áheitahlaup
- Ferð í Krossanesborgir
- Bátakeppnin
Á þriðjudeginum 16. maí hófst ballið með hefðbundinni kennslu og morgunmat. Loks var komið að Vorleikunum, en um er að ræða níu þrautir sitt hvorum megin við frímínútur sem að nemendurnir þurftu að leysa og safna stigum. Sá eða sú sem endar daginn með flest stig fær nafn sitt áletrað á glæsilegan Vorleikabikar.
Þrautirnar voru:
Fyrri helmingur:
- Armbeygjur
- Jenga
- Heilabrot og þrautir
- Sprettur
- Pottkast
- Frisbígolf
- Olsen
- Sushi
- Bollabolti
Seinni helmingur:
- Burpees
- Skákþrautir
- Vítaskot (körfubolti)
- Sipp
- Vísnagátur
- Fötuhald
- Stígvélakast
- Peppið
- Umstafla glösum
Vorleikarnir enduðu þannig að í efsta sæti varð hann Ágúst, í öðru sæti var Óðinn og þriðja sæti Aron E. Til hamingju strákar!
Hér að neðan má sjá myndir frá ýmsum þrautum.
Eftir hádegismat var komið að áheitahlaupinu. Það hefur skapast sú hefð hér í Hlíðarskóla að undir lok hvers skólaárs safni nemendur áheitum til styrktar ákveðins góðgerðafélags. Nemendurnir hlupu eins og fætur toguðu, en að þessu sinni var ákveðið að heita á Krabbameinsfélagið. Það gekk (og hljóp) eins og í sögu. Um þessar mundir er verið að fara yfir bókhaldið en ekki er komin niðurstaða um nákvæma upphæð sem safnaðist. Við viljum þakka öllum aðstandendum sem lögðu hönd á plóg innilega fyrir!
Hér koma nokkrar myndir frá hlaupinu.
Miðvikudagurinn 17. maí var engu síðri. Eftir snemmbúinn morgunmat var förinni heitið í Krossanesborgir þar sem nemendum var skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn virti fyrir sér náttúruna og bar kennsl á ýmis náttúruleg og söguleg fyrirbæri, t.a.m. fjöllin sem umlykja okkar fallega fjörð, grettistök, skófir, hvalbök, jökulrákir, plöntur og fleira sem þar er að finna. Hinn hópurinn fekk sér göngutúr í fuglakofann og fræðslu um allt fuglalífið sem þrífst í þessari náttúruparadís.
Eftir hádegismat sama dag var komið að bátakeppninni vinsælu. Nemendur höfðu vikurnar á undan unnið hörðum höndum við að hanna hinn fullkomna bát sem gæti skotið „Gulu Þrumunni“ ref fyrir rass. Gula Þruman er bátur sem er hannaður og fínpússaður af starfsmanni skólans og hafði unnið undanfarin þrjú ár í röð. Keppnin í ár endaði á svipuðum nótum, því að Gula Þruman hrósaði sigri í enn eitt skiptið! Þegar betur var að gáð ákváðu dómararnir að brögð hefðu verið í tafli, enda ósanngjarnt að slíkur svindlbátur sé notaður í eins drengilegri keppni og bátakeppnin er. Gula Þruman var því dæmd úr leik, en þó var það aðallega vegna þess að skipstjórinn var ekki með réttindi til þátttöku. Sorrý Valdimar…
Í hópi nemenda voru tveir sem komu hnífjafnir í mark, en það voru þeir Darri og Ágúst! How a‘bát that? Aron M hreppti síðan bronsið.
Til hamingju strákar!
Að lokum er vert að minnast á annars konar verðlaunaafhendingu sem fór fram á miðvikudeginum. Þá heimsótti okkur hún Jóna Finndís, formaður UFA, til að afhenda skólanum bikar. Ástæðan er sú að Hlíðarskóli var með hæsta þátttökuhlutfall nemenda meðal þeirra grunnskóla Akureyrar sem tóku þátt í 1. maí hlaupinu, en 55% nemenda mættu og tóku þátt! Magnaðir…
Við erum rosalega stolt af krökkunum fyrir að gera dagana eins skemmtilega og raun ber vitni.
Til hamingju aftur öll sömul!
Hér að neðan má sjá myndir af verðlaunahöfum vikunnar, en allir nemendurnir voru sigurvegarar.