1.apríl

Í Hlíðarskóla var 1.apríl tekinn alvarlega jafnt af starfsmönnum sem nemendum.
Ítrekaðar tilraunir voru gerðar yfir daginn til að fá aðra til að hlaupa sem gengu misvel.
Besta gabbið þetta árið var þó af höndum starfsmanna þar sem nemendum var sýnd þessi mynd og tilkynnt að frétt um hval sem hefði rekið upp í Skjaldarvík. Allur nemendahópurinn hljóp niður í fjöru í leit að honum en þeim til lítillar gleði var þessi mynd gerð af gervigreind.

Fyrir áhugasama voru nokkrar myndir teknar í mars mánuði í daglegu starfi skólans og er þær að finna hér.

Sprengidagur/öskudagur

Í tilefni af öskudeginum mætti allt starfsfólk og margir nemendur í grímubúningi daginn fyrir öskudag. Nemendur fengu tækifæri á að ganga á milli skrifstofa og kennslustofa og syngja og fengu nammi að launum. Virkilega skemmtilegur dagur og gaman að brjóta upp skólastarfið með óhefðbundnum æfingum sem reyna á samvinnu, þor og efla félagsandann.

Smellið hér fyrir myndir frá deginum https://photos.app.goo.gl/KaPtUpD1gUcx93XZ9

Nemendur verða í vetrarfríi 5., 6. og 7. mars. Skóli hefst að loknu vetrarfríi mánudaginn 10.mars kl.8.15.

Skólahaldi aflýst í Hlíðarskóla 6. febrúar

Gefin hefur verið út rauð veðurviðvörun og tekur hún gildi á Akureyri kl. 10 á morgun, fimmtudaginn 6. febrúar, og stendur til um kl. 16. Verst verður veðrið á Tröllaskaga en áhrifa mun gæta hjá okkur á Akureyri. 

Vegna óhagstæðrar veðurspár hefur sú ákvörðun verið tekin að skólahald í Hlíðarskóla falli niður fimmtudaginn 6.febrúar. Þessi ákvörðun er fyrst og fremst tekin með öryggi nemenda og starfsfólks í huga.
Búast má við miklum vindstyrk þar sem hviður gætu farið yfir 50 m/s. Sérstaklega er bent á að veðurspáin gerir ráð fyrir mjög erfiðum aðstæðum utan þéttbýlis, þó veður kunni að vera skaplegt innan bæjarmarka á einhverjum tímapunkti. Skólaakstur er sérstaklega viðkvæmur þáttur við þessar aðstæður og vegur þyngst í ákvörðuninni um að fella niður skólahald.

Föndurdagur og gluggaskreytingar

Síðustu vikur hafa nemendur verið að undirbúa gluggaskreytingar og fimmtudaginn 28 nóvember var svo farið og málað þær í glugga Pennans Eymundssonar á Akureyri. Við getum með stolti sagt að Hlíðarskóli hefur hlotið þennan heiður að nærri óslitnu síðan 2008 að skreyta þessa glugga. Á hverju ári hafa nemendur verið okkur til sóma og gert myndir sem skólinn getur verið stoltur af.

Þeir nemendur sem ekki fóru í gluggaskreytingar fengu að skreyta stofuna sína og horfa á jólamynd fyrir hádegi. Eftir hádegi vorum við með jólaföndurdag og bauðst foreldrum/forráðamönnum og öðrum fjölskyldumeðlimum að koma og búa til ýmiskonar jólaskraut með börnunum sínum. Sló það heldur betur í gegn og var góð mæting. Við áttum virkilega huggulega stund með kakó og smákökum yfir skemmtilegu og fjölbreyttu föndri og viljum við þakka ykkur kærlega fyrir komuna.

Einhverjar myndir voru teknar í Pennanum og í jólaföndrinu og hægt er að finna þær hér.

Kuldatíð

Vegna kulda var ekki farið í skólasund í dag. Þess í stað voru nemendur sem áttu að vera í sundi hér í skólanum og spiluðu spil og unnu verkefni.

Þar sem farið er að kólna úti og snjórinn kominn minnum við á mikilvægi þess að nemendur komi vel búin til útiveru. Allir nemendur fara út í frímínútur að minnsta kosti einu sinni á dag og mörg kjósa að fara í báðum frímínútum. Einnig er þónokkuð um að nám fari fram utandyra einnig svo það er mjög mikilvægt að vera í hlýjum skóm, í úlpu, snjóbuxum eða galla ásamt því að hafa húfu og vettlinga.

Dagur mannréttinda barna

Dagur mannréttinda barna er haldinn 20. nóvember ár hvert og er hann helgaður vitundarvakningu og fræðslu um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. 

Í tilefni dagsins höfðu allir nemendur okkar unnið saman að því innan bekkja að móta stefnumál og koma fram með áherslur og atriði sem skipta þau máli hér í nærumhverfinu og stofnuðu þau „stjórnmálaflokk“ í hverri stofu. Flest málefnin snéru að því að gera skólann að betri stað, breytingar á útisvæðinu okkar komu fram hjá öllum flokkum, óskir um að fá að koma með nesti einu sinni í mánuði, hafa dótadag reglulega, fá salatbar í matsalinn til að hafa alltaf aðgang að hollu grænmeti í hádeginu burt séð frá því sem væri í matinn hverju sinni. Nemendur stóðu fyrir kynningu fyrir alla nemendur og starfsfólk skólans og svo var kosning. Mjög góð þátttaka var í kosningunum og gafst gott tækifæri til að kenna mikilvægi þess að tjá skoðun sína og mæta á kjörstað. Nýta lýðræðið og hversu dýrmætt það er. Sett var upp kjördeild í Skildi og farið eftir öllum helstu atriðum lýðræðislegra kosninga.

Þegar úrslitin lágu fyrir var það að lokum flokkurinn Kexkökurnar sem báru sigur úr býtum.

Helstu áherslur flokksins eru:

  • – Einu sinni í mánuði meiga yngri deild og eldri deild spila borðspil eða kahoot.
  • -Bæta leiksvæði á skólalóð, t.d kastali og línur fyrir fótboltavöll.
  • -Nýta skjöld betur ásamt því að nýta úti svæðið betur. Nýta fjörunna betur og stækka heimilisfræði stofu.
  • -Hafa salatbar til að fá í hádegi og hafa sósu þannig við getum fengið okkur salat í skál.

Veðurspáin 15.nóvember

This image has an empty alt attribute; its file name is vedur-is-Vidvaranir-Vedurstofa-Islands-11-14-2024_04_40_PM.png

Á morgun er spáð norðanhvelli vegna norðvestan hvassviðris eða storms með snjókomu og lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður verður eftir klukkan 14.00 samkvæmt Veðurstofunni eins og spár standa nú, seinnipart 14.nóv. Skóla lýkur hjá okkur klukkan 12.00 og er Skólahald áætlað á morgun.

Almennt þegar vond vetrarveður ganga yfir verða foreldrar ávallt að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann ef ekki hefur komið tilkynning frá lögreglu um að skólahald skuli falla niður. Sé barn heima vegna veðurs eða ófærðar þarf að tilkynna það í síma 414-7980 eða með tölvupósti á netfangið: erlam@akmennt.is.

Ef veður eða færð er með þeim hætti að morgni að lögregla mælir með því að skólahald verði fellt niður, fellur niður allt formlegt skólahald í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar. Í slíkum tilvikum kemur tilkynning í útvarpi RÚV og Bylgjunnar. Gert er ráð fyrir að fyrsta tilkynning sé birt kl.7.00 að morgni. Einnig kemur tilkynning hér á heimasíðu skólans auk þess sem umsjónarkennarar senda tölvupóst til foreldra og sett verður tilkynning á ClassDojo.

Röskun á skólastarfi

Vegna veðurútlits í dag, 7.nóvember, hefur verið tekin ákvörðun um að ljúka skóla klukkan 12.20.

Appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi klukkan 12.00 og má búast við að vindur verði 20-28 m/s og gætu hviður náð 40 m/s.
Nemendur verða keyrðir á stoppistöðvar þeirra að loknum hádegisverði.

Hrekkjavaka

Haldið var upp á hrekkjavöku með pompi og prakt 31.október. Nemendur skreyttu stofur sínar með köngulóarvef, draugum, afsöguðum höndum og öðru sem þeim þótti tilheyra.

Á hrekkjavöku er brugðið út frá hefðbundinni kennslu og boðið upp á annarskonar nám. Sú hefð hefur skapast að starfsfólk setur upp draugahús sem nemendum er boðið upp á að fara í að morgni hrekkjavöku. Að þessu sinni var draugahúsið sett upp í kjallara Skjaldarvíkurhótelsins og voru mismunandi þemu í hverju herbergi. Bjarki tónlistarkennari bjó til hrollvekjandi hljóðskrá sem spiluð var á meðan nemendur gengu um. Sumum þótti nógu ógnvænlegt að fara inn í þetta stóra hús sem stendur autt á skólalóðinni. Aðrir voru kokhraustir og sögðu þetta ekkert mál og þeim hefði ekkert brugðið. Þau sem vildu fengu fylgd í gegnum svæðið. Óhætt er að segja að draugahúsið hafi hitt í mark hjá flestum nemendum og höfðu öll gaman af, jafnt starfsfólk sem nemendur. Allt starfsfólk mætti í búningum og flestir nemendur að auki. Boðið var upp á andlitsmálningu fyrir þau sem það vildu.

Krakkarnir fengu svo að kryfja þau dýra innyfli sem notuð voru í draugahúsinu í framhaldi af deginum.

1 2 3 13