Skólaferðalög 2024

Nú fer skólaárinu senn að ljúka og því tími fyrir skólaferðalög en yngri deildin skellti sér austur fyrir fjall 29.maí og sú eldri vestur yfir heiði 30.maí. Bæði ferðalögin gengu frekar vel fyrir sig en þau voru vel skipulögð af kennurum sem pössuðu vel uppá afþeyingu ásamt skoðunarferðum þar sem allir gátu lært eitthvað nýtt.

Yngri deildin (myndir í hlekki) byrjaði daginn á Grenjaðarstað í Þingeyjarsveit, þar er þetta glæsilega gamla prestsetur með mikið af gömlum og áhugaverðum hlutum. Þaðan var förinni heitið í Ásbyrgi þar sem skoðuð var sýningin í gestastofunni, grillaðar pylsur og sykurpúða ásamt því að rölta inn að Botnstjörn. Mývatnssveit var næsti áfangastaður þar sem keyrt var upp að hverasvæðinu og endaði hópurinn á því að skella sér í Jarðböðin. Eftir böðin var farið á pizzahlaðborð í Dalakofanum á Laugum og síðasti áfangastaður var Goðafossinn glæsilegi.

Eldri deildin (myndir í hlekki) fór vestur í Skagafjörð að skoða ýmsa víkingatengda staði en fyrst var ferðinni heitið að Reykjafossi sem er virkilega fallegur. Kakalaskáli var næsti áfangastaður þar sem þau fengu kynningu og skoðuðu steina, næst skellti hópurinn sér í sund í Varmahlíð áður en þau renndu í Ásheima að hitta Árna Hegranesgoða þar sem þau fengu að skoða hofið, grilla pylsur og kynnast ásatrúnni. Eftir hádegið var farið á Hofsós að skoða stuðlabergið, síðan var farið á Sauðárkrók á 1238 safnið og í Mjólkursamlagið. Síðasta stoppið í þessu bráðskemmtilega ferðalagi var svo Bakkaflöt þar sem þau skelltu sér í loftbolta og þrautabraut.

Þemadagar 2024

Þemadagar í ár (myndir í hlekki) voru haldnir þriðjudaginn 14. maí og miðvikudaginn 15. maí. Þemað þetta skiptið var hafið og höfðu bæði nemendur og starfsmenn ótrúlega gaman af.

Á þriðjudeginum byrjaði eldri deildin á að fara Hauganes fram að hádegi þar sem var farið í pottana og vaðið í sjóinn á meðan yngri deildin fór í fjöruna hjá okkur og týndi þar bæði rusl og ýmislegt áhugavert sem hægt var að smíða úr og föndra eins og sést á mynd hér að ofan. Eftir hádegi fóru allir í vinnusmiðjur þar sem hægt var að fara í skartgripagerð, listaverkagerð (mynd að ofan) og teikna myndir tengdar hafinu.

Miðvikudagur byrjaði eins nema yngri skelltu sér í pottana á Hauganesi og eldri fóru í fjöruna hér í Skjaldarvík. Eftir hádegi var svo hin árlega og æsispennandi bátakeppni þar sem allir stóðu sig með prýði og bátarnir ótrúlega flottir. Í þriðja sæti þetta árið var hann Viktor Atli og fékk bronsið, Aron Máni hneppti annað sætið og silfrið en í fyrsta sæti var Jónas Perez ásamt því að fá verðlaun fyrir frumlegasta bátinn (KFC kjúklingaleggur).

Dagur Tónlistarskólans, Útivistardagur og Þorgrímur Þráinsson.

Miðvikudaginn 7. febrúar var dagur tónlistarskólans og fengum við í Hlíðarskóla þá yndislegu upplifun að fá heimsókn frá tónlistarskóla Akureyrar, þar sem var bæði sungið fyrir okkur og spilað á fiðlur.
Fimmtudagurinn 8. febrúar var síðan útivistardagur Hlíðarskóla. Við vorum rosalega heppin með veðrið, pínu kalt en skínandi sól og skýlaust. Skruppum af og til inn til að fá okkur heitt kakó og grillaðar samlokur. Þeir sem ekki vildu fara uppí fjall voru í skólanum að meðan og fengu að elda sinn eiginn morgunmat og hádegismat 😉
Mánudaginn 12. febrúar, bolludag, fengum við í heimsókn Þorgrím Þráinsson, sem flutti fyrirlesturinn „Verum ástfangin af lífinu“ fyrir 8. – 10. bekk okkur til mikillar ánægju. Að sjálfsögðu fengum við bollur eftir hádegismat.

Myndaalbúm

Jólaundirbúningur

Fimmtudaginn 30. nóvember var jólaundirbúningsdagur hjá okkur. Nemendur og starfsmenn tóku upp jólaskraut og skreyttu stofur og ganga fram að hádegi. Eftir morgunmat hoppuðum við út til að grilla okkur nokkra sykurpúða. Eftir hádegi komu foreldrar í heimsókn og fóru ásamt nemendum um stöðvar til að búa til jólaskraut. Myndaalbúm.

Stór vika! 13-17 nóvember 2023

Nú er að klárast hjá okkur ansi efnismikil vika. Á þriðjudaginn vorum við með hamborgara í matinn, sem nemendur völdu sér í vikunni á undan, en þá var kosið á milli nokkurra rétta eins og kjúkliarétts, plokkfisk, hálfmána með beikonosti o.fl. Á miðvikudaginn fengum við svo körfuboltakörfurnar sem við erum lengi búin að bíða eftir.
Fimmtudagurinn var dagur íslenskrar tungu og brutum við upp hefðbundið skólahald í nokkrar stöðvar sem nemendur gátu flakkað um á milli. Þá var hægt að velja teiknimyndasögugerð, ljóðasmíði, hlaðvarpsáheyrn, kappsmál orðaleiki og lestrarkrók. Eftir þessar stöðvar voru valtímar og endaði dagurinn hjá okkur kl 12.
Í dag, föstudag, byrjaði dagurinn á Skólaráðsfundi, þar sem farið var yfir fjárhagsskýrslu síðasta árs og skýrslu gæðaráðs, innra mat og umbótaráætlun. Mæting á fundinn var nokkuð góð, 8 nemendur ásamt starfsfólki í Skólaráði. Það helsta var að skólinn var rekinn á fjárhagsáætlun ásamt því að miklar umbætur náðust í innra mati.
Næsta vika verður líka áhugaverð hjá okkur en á mánudaginn er dagur mannréttinda barna og svo á fimmtudaginn höldum við nemendaþing.

Myndaalbúm

1 2 3 4 12