Lærdómur við heimsklassa aðstæður

Það eru fáir skólar sem geta státað sig af jafn fallegu umhverfi og Hlíðarskóli.
Það hafa komið fallegir og góðir dagar og þá nýtum við tækifærið og umhverfið til kennslu.

Á fyrri myndinni má sjá starfsfólk og nemendur virða fyrir sér fjóra Hnúfubaka sem léku listir sýnar í sjónum rétt fyrir utan Hlíðarskóla en það nálægt að hægt var að fylgjast vel með frá bæjarstæðinu.

Seinni myndin var tekin í gær og þá nýttum við daginn og hér má sjá nemendur í myndmennt hjá Óla. Það má segja að þarna sé verið að læra við heimsklassa aðstæður.

Geðlestin kom í heimsókn 4.maí

Þann 4.maí kom geðlestin í heimsókn í Hlíðarskóla.
Geðlestin er geðfræðsla sem byggir á þeirri staðreynd að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvind og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Verkefnið er styrkt af félagsmála- og heilbrigðisráðuneytunum.

Geðlestin er viðleitni til þess að færa kennurum verkfæri sem hægt er að nota við geðfræðslu á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Geðlestinni er ætlað að vekja athygli á mikilvægi geðheilsu og verndandi þáttum hennar.
Í lokinn flutti MC Gauti tónlistaratriði og tóku nemendur og kennarar vel undir.

Kennarar og nemendur voru sammála um að heimsóknin hafi verið stórskemmtileg og frábært að fá svona heimsókn inn í skólastarfið.
Við í Hlíðarskóla viljum þakka Geðlestinni fyrir innlitið.

Vorleikar/Árshátíð Hlíðarskóla

Á föstudaginn 29.apríl fór fram vorleikar og árshátíð Hlíðarskóla 2022.

Fyrir hádegi var keppt í vorleikunum sem innihélt 18 keppnisgreinar/þrautir.

Þær þrautir voru:
1.Setja saman legó á tíma.

2. Halda kúlu á lofti með borðtennisspaða.

3.Olsen olsen keppni

4.Jenga

5.Pennalyftur.
6.Vísnaþraut.
7.Dans í haldi

8. Hver getur kastað frisbídisk lengst

9.Halda bolta á lofti og segja brandara.

10.Flöskuflipp.

11.Spilablástur

12.Hitta penna sem var bundinn við mann ofan í flösku.

13.Teikniþraut

14.Skjóta 10 skotum á körfu.

15. Ferja vatn í fötu með diskum.

16.Kubbur.

17.Crossfit.

18.Skóspark
Það er óhætt að segja að keppnin var æsispennandi og var virkilega mjótt á mununum.

Síðan var grillað pylsur í hádeginu og kl 13:00 komu foreldrar á Árshátíð.

Byrjuðum við á að spila Kahoot sem nemandi hafði samið og voru spurningarnar um starfsfólk Hlíðarskóla.

Yngri deildin sýndi myndband af þeim Bakkabræðrum (Gísla, Eirík og Helga) aldeilis glæsilegt hjá þeim og síðan var flutt myndband sem bar nafnið starfsmannagrín. Þar brugðu nemendur sér í gerfi starfsmanna og gerðu grín af þeim með stórskemmtilegum árangri. Buðum við síðan upp á veitingar og síðan spiluðu nemendur við foreldra sína uppáhalds spilin sín í skólanum.

Aldeilis frábær dagur hjá okkur og nemendur eiga stórt hrós skilið hversu duglegir og jákvæðir þeir voru allan daginn.
Hér má sjá nokkra nemendur reyna við teikniþrautina.

Snjallvagninn kom í heimsókn 27.04

Í gær kom snjallvagninn í heimsókn en þeir sinna fræðslu unglinga um stafræna borgaravitund og hegðun á netinu í samstarfi við Huawei. Fræðslan hefur farið fram á netinu hingað til en nú er loksins komið svigrúm til að mæta á staðinn og kynna efnið . Fræðslan er hönnuð af sérfræðingum Evrópuráðsins. Fræðslan hefur verið í höndum Lalla töframanns sem fræðir krakkana ásamt því að vera með skemmtun inn á milli. Fræðslan var gagnvirk þar sem krakkarnir svöruðu spurningum á snjalltækjunum sínum í fyrirlestrinum og fá niðurstöðu í lokin hvernig “netkarakter” þau eru.

Virkilega gaman að fá þau í okkar litla skóla og fjalla um mikilvægt málefni hvernig við hegðum okkur á netinu.

Nemendur völdu hádegismatinn


Í seinustu viku fengu nemendur að velja hvað væri í hádegismatinn.
Byrjað var að fá hugmyndir hvað ætti að vera í matinn og þegar það voru komnar nokkrar tilnefningar að þá var einvígi (head to head) milli máltíða. Það fór þannig fram að tvær máltíðir voru nefndar og áttu nemendur að velja á milli. Sú máltíð sem fékk fleiri atvkæði fór áfram en hin datt út. Svona var gert alveg þangað til að ein máltíð stóð eftir sem sigurvegari.
Sú máltið sem krakkarnir völdu var TACO en einnig var boðið upp á Tortilla kökur.


This image has an empty alt attribute; its file name is 275669726_651346666170480_1524229742401714489_n.jpg

Hér má sjá vaska menn taka sér stöðu að til að skammta matinn enda veitti ekki af slík var ásóknin í matinn og nemendur í skýjunum yfir þessu uppátæki. Ákveðið var í skólaráði að þetta skuli gert einu sinni á önn og einnig verði óvæntur öðruvísi morgunmatur einu sinni á önn.

Skólaráðsfundur 14,03,2022

Skólaráðsfundur Hlíðarskóla 14. mars 2022

Haldin í Skildi klukkan 12:40

Mættir:  Valdimar, Bibbi, Lúkas, Sigríður.  Alla og Anton eru veik.

1. Fjárhagsáætlun Hlíðarskóla.

Fjárhagsáætlun er ekki að fullu tilbúin en verður kynnt þegar hún er klár. 

2. Skóladagatal 22/23.  

Samþykkt einróma (með þeim breytingum sem bent var á varðandi talningu á gulum dögum.)

3. Útivistardagurinn 24. mars

Farið verður í Hlíðarfjall 24. mars en ef veður verður slæmt þá er 28. mars til vara.  Verið er að safna upplýsingum um búnað, hvað vantar nemendur.  Skólinn bjargar nemendum um þann búnað sem vantar. Skólinn mun skaffa nemendum nesti á útivistadeginum.

4. Árshátíð / vorleikar

Árshátíð / vorleikar verða haldnir föstudaginn 29. apríl.  Byrjað verður bráðlega á að skipuleggja þennan dag.  Undanfarin tvö ár hefur árshátíð fallið niður.

5. Erindi frá nemendum

Fá stærri sandkassa

Sandkassinn er kominn til Akureyrar og beðið er eftir því að hann verði settur niður þegar færi gefst. 

Fá betri rólu og kastala úr timbri. 

Farið verður með óskir um bætta aðstöðu á útisvæði í fasteignir Akureyrar.   Útisvæðið þarf að bæta verulega, því er verulega ábótavant og ósk um rólu og kastala er í þeim pakka.

Getum við haft öðruvísi morgunmat einu sinni í mánuði

Búið er að semja um að hafa öðruvísi morgunmat einu sinni á önn. Stefnt að því að hafa það þegar allir nemendur eru mættir. 

Einnig var samið um öðruvísi hádegismat einu sinni á önn. Miðað er við að það sé þegar starfsdagur á Iðavelli.

Getum við haft dótadag?

Samþykkt að hafa dótadag einu sinni á önn.

Er hægt að hafa gistinótt í skólanum?

Það er erfitt að bjóða upp á að gista en möguleiki á að hafa kvöldskemmtun fyrir bekkinn.

Er hægt fá að koma með frjálst nesti einu sinni á önn.

já.  Það er góður möguleiki og verður skoðað hvenær hentar best.

Er möguleiki á að fá aðra körfu.  

Rætt var um körfuboltavöllinn og ákveðið að kanna annars vegar að setja upp tvær körfur og völl og hins vegar að koma upp körfu í minni hæð fyrir yngri nemendur.

Þythokký eða poolborð í tölvustofu.  

Þetta verður skoðað í samhengi við annað sem á að koma þar að.

Er hægt að koma upp vatnsvél?

Umræður og niðurstaðan er að hafa vatnskönnur í hverri stofu og glas merkt hverjum nemanda.

Gervigrasvöllur í stað fótboltavallar sem er fyrir.  Allir skólar á Ak hafa svoleiðis nema Hlíðarskóli.

Ákveðið að fara fram á það við Akureyrarbæ að kanna hvort af þessu geti orðið.  

Beiðni um að hafa leyfi fyrir því að hafa húfu inni.

Það eru kostir og gallar.  Samþykkt var að hafa tilraunaverkefni fram að páskum að leyfa húfur í tímum, ekki í matsal, íþróttum eða sundi.  Húfur sem eru blautar, illa lyktandi eða skítugar verða eftir í forstofu / fatahengi.  Kennarar dæma um það hvort húfur séu hreinar og til þess fallnar að vera á höfði nemanda í tíma.

6.  Önnur mál.

Engin önnur mál.

Næsti fundur mánudagur 9. maí klukkan 12:40.

Fundi slitið 13:40.

Óvæntur morgunmatur og útivistardagur.

Í dag var óvæntur/óhefðbundinn morgunmatur hjá okkur í Hlíðarskóla. Boðið var upp á french toast, eggjahræru, bacon, ostastangir, bakaðar baunir og pylsur.
Krakkarnir voru flest öll í skýjunum yfir þessu uppbroti þó svo að einhverjir hefðu frekar viljað gamla góða hafragrautinn ?

Því miður gleymdist að taka myndir en við ætlum að reyna vera duglegri við það á næstunni ef það er tilefni til.

Á skóladagatalinu okkar stendur að við eigum útivistardag 16.mars. Sá dagur hefur verið færður til 24.mars og munum við hafa 28.mars til vara sé veður vont þann 24.mars. Nánari upplýsingar um daginn koma þegar nær dregur.

1 4 5 6 7 8 12