Þá er komið að öðrum podcast þætti okkar hér í Hlíðarskóla.
Við fengum tónlistarmanninn og íshokkí þjálfarann Rúnar F til að koma í spjall til okkar og ræða lífið, tilveruna og ferilinn.
Við erum afskaplega þakklát þeim Rúnari og Helga fyrir að gefa sér tíma til að koma og spjalla við okkur. Einnig viljum við þakka dóra og Podcast stúdíó Akureyrar fyrir alla aðstoðina við gerð þáttanna og veita okkur tækifæri til að sinna þessu frábæra verkefni.
Það er óhætt að segja að það hafi verið nóg um að vera í Hlíðarskóla í seinustu viku. Við vorum með þemadaga 24-25.maí sem tókust ótrúlega vel en þemað var útivist og hreyfing. Fyrri daginn að þá fengum við að leika okkur á kayak og voru allir mjög ánægðir með það.
Eftir hádegið fór síðan fram hið árlega áheitahlaup Hlíðarskóla. Nemendur stóðu sig einstaklega vel og fór söfnunin fram úr björtustu vonum. Nemendur fengu að velja hvaða málefni yrði styrkt með ágóðanum úr hlaupinu og var félagið „Hetjurnar“ fyrir valinu en félagið aðstandenda langveikra barna á Norðurlandi. Við erum ótrúlega stolt að segja frá því að nemendur okkar í Hlíðarskóla söfnuðu rúmlega 103 þúsund krónur sem rennur til þessa góða málefnis. Skólinn þakkar nemendum okkar sem hlupu hverja ferðina á fætur öðru til að safna sem mestum peningum. Einnig vill skólinn þakka þeim foreldrum sem styrktu hlaupið og starfsfólki Hlíðarskóla en hver einn og einasti starfsmaður styrkti hlaupið og af því erum við stolt. Hér fyrir neðan má sjá Valdimar skólastjóra Hlíðarskóla afhenda Dagný peninginn sem safnaðist en hún kom fyrir hönd Hetjanna.
Við byrjuðum seinni daginn hjá gólfklúbbnum Jaðri og reyndum fyrir okkur í golfi. Skemmtilegt sport og höfðu nemendur og starfsmenn gaman af.
Eftir hádegið fór fram hin árlega bátakeppni Hlíðarskóla. Allir nemendur höfðu smíðað báta og síðan er tímataka niður lækinn sem rennur í gegnum Skjaldarvíkurlandið. Keppnin var æsispennandi og mátti litlu muna þegar kom að efstu sætunum.
Yndislegir dagar að baki og við förum þakklát og glöð inn í seinustu viku skólaársins með okkar frábæru nemendum.
Það eru fáir skólar sem geta státað sig af jafn fallegu umhverfi og Hlíðarskóli. Það hafa komið fallegir og góðir dagar og þá nýtum við tækifærið og umhverfið til kennslu.
Á fyrri myndinni má sjá starfsfólk og nemendur virða fyrir sér fjóra Hnúfubaka sem léku listir sýnar í sjónum rétt fyrir utan Hlíðarskóla en það nálægt að hægt var að fylgjast vel með frá bæjarstæðinu.
Seinni myndin var tekin í gær og þá nýttum við daginn og hér má sjá nemendur í myndmennt hjá Óla. Það má segja að þarna sé verið að læra við heimsklassa aðstæður.
Þann 4.maí kom geðlestin í heimsókn í Hlíðarskóla. Geðlestin er geðfræðsla sem byggir á þeirri staðreynd að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvind og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Verkefnið er styrkt af félagsmála- og heilbrigðisráðuneytunum.
Geðlestin er viðleitni til þess að færa kennurum verkfæri sem hægt er að nota við geðfræðslu á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Geðlestinni er ætlað að vekja athygli á mikilvægi geðheilsu og verndandi þáttum hennar. Í lokinn flutti MC Gauti tónlistaratriði og tóku nemendur og kennarar vel undir.
Kennarar og nemendur voru sammála um að heimsóknin hafi verið stórskemmtileg og frábært að fá svona heimsókn inn í skólastarfið. Við í Hlíðarskóla viljum þakka Geðlestinni fyrir innlitið.
Á föstudaginn 29.apríl fór fram vorleikar og árshátíð Hlíðarskóla 2022.
Fyrir hádegi var keppt í vorleikunum sem innihélt 18 keppnisgreinar/þrautir.
Þær þrautir voru: 1.Setja saman legó á tíma.
2. Halda kúlu á lofti með borðtennisspaða.
3.Olsen olsen keppni
4.Jenga
5.Pennalyftur. 6.Vísnaþraut. 7.Dans í haldi
8. Hver getur kastað frisbídisk lengst
9.Halda bolta á lofti og segja brandara.
10.Flöskuflipp.
11.Spilablástur
12.Hitta penna sem var bundinn við mann ofan í flösku.
13.Teikniþraut
14.Skjóta 10 skotum á körfu.
15. Ferja vatn í fötu með diskum.
16.Kubbur.
17.Crossfit.
18.Skóspark Það er óhætt að segja að keppnin var æsispennandi og var virkilega mjótt á mununum.
Síðan var grillað pylsur í hádeginu og kl 13:00 komu foreldrar á Árshátíð.
Byrjuðum við á að spila Kahoot sem nemandi hafði samið og voru spurningarnar um starfsfólk Hlíðarskóla.
Yngri deildin sýndi myndband af þeim Bakkabræðrum (Gísla, Eirík og Helga) aldeilis glæsilegt hjá þeim og síðan var flutt myndband sem bar nafnið starfsmannagrín. Þar brugðu nemendur sér í gerfi starfsmanna og gerðu grín af þeim með stórskemmtilegum árangri. Buðum við síðan upp á veitingar og síðan spiluðu nemendur við foreldra sína uppáhalds spilin sín í skólanum.
Aldeilis frábær dagur hjá okkur og nemendur eiga stórt hrós skilið hversu duglegir og jákvæðir þeir voru allan daginn. Hér má sjá nokkra nemendur reyna við teikniþrautina.
Í gær kom snjallvagninn í heimsókn en þeir sinna fræðslu unglinga um stafræna borgaravitund og hegðun á netinu í samstarfi við Huawei. Fræðslan hefur farið fram á netinu hingað til en nú er loksins komið svigrúm til að mæta á staðinn og kynna efnið . Fræðslan er hönnuð af sérfræðingum Evrópuráðsins. Fræðslan hefur verið í höndum Lalla töframanns sem fræðir krakkana ásamt því að vera með skemmtun inn á milli. Fræðslan var gagnvirk þar sem krakkarnir svöruðu spurningum á snjalltækjunum sínum í fyrirlestrinum og fá niðurstöðu í lokin hvernig “netkarakter” þau eru.
Virkilega gaman að fá þau í okkar litla skóla og fjalla um mikilvægt málefni hvernig við hegðum okkur á netinu.
Stefnan var að fara í Hlíðarfjall á morgun en ferðinni hefur nú verið frestað til föstudagsins 25.mars. Það er ágætis spá fyrir föstudaginn og vonandi helst hún þannig.
Stefnan er að fara í Hlíðarfjall 24.mars ef veður leyfir. Póstur hefur verið sendur á forráðarmenn nemenda með öllum helstu upplýsingum. Nú er bara að krossa fingur og vona að við fáum gott veður.
Í seinustu viku fengu nemendur að velja hvað væri í hádegismatinn. Byrjað var að fá hugmyndir hvað ætti að vera í matinn og þegar það voru komnar nokkrar tilnefningar að þá var einvígi (head to head) milli máltíða. Það fór þannig fram að tvær máltíðir voru nefndar og áttu nemendur að velja á milli. Sú máltíð sem fékk fleiri atvkæði fór áfram en hin datt út. Svona var gert alveg þangað til að ein máltíð stóð eftir sem sigurvegari. Sú máltið sem krakkarnir völdu var TACO en einnig var boðið upp á Tortilla kökur.
Hér má sjá vaska menn taka sér stöðu að til að skammta matinn enda veitti ekki af slík var ásóknin í matinn og nemendur í skýjunum yfir þessu uppátæki. Ákveðið var í skólaráði að þetta skuli gert einu sinni á önn og einnig verði óvæntur öðruvísi morgunmatur einu sinni á önn.