Sprengjum bollur og allt í ösku…

Þessa vikuna fagna börn landsins bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Hér í Hlíðarskóla héldum við uppá bolludaginn með fiskibollur í aðalrétt og rjómabollur í eftirrétt. Þar sem starfsdagur er á öskudegi, héldum við uppá öskudaginn og sprengidag saman. Fyrir hádegi fengu börnin að ganga á milli stöðva og syngja, og fengu nammi að launum. Í hádeginu var svo náttúrulega saltkjöt í baunsúpu. Hér fyrir neðan má sjá myndir af því sem gekk um ganga skólans fyrir hádegi (og ein bollumynd).

Lífshlaupið

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni íþrótta- og Ólympíusambands íslands sem höfðar til allra aldurhópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta.

Tekið af síðu Líflshlaupsins.

Starfsmenn Hlíðarskóla tóku vissulega þátt í lífshlaupinu og hélt Hlíðarskóli sína eigin Lífshlaupskeppni fyrir nemendur, þar sem veitt var verðlaun fyrir þrjú efstu nemendasætin og sér verðlaun fyrir þá stofu sem náði hæðst. Hér fyrir neðan má sjá myndir af verðlaunahöfum.

Styrkur Norðurorku til samfélagsverkefna 2023

Hlíðarskóli fékk úthlutað styrk frá Norðurorku 26. janúar sl. og erum við afskaplega þakklát.

Alls bárust 125 umsóknir og var Hlíðarskóli einn af 58 verkefnum sem fengu styrk.

Hlíðarskóli er eini sérskóli Akureyrarbæjar og leggjum við  mikla áherslu á að nemendur okkar fá kennslu sem byggir á fjölbreytni og tekur tillit til mismunandi þarfa nemenda okkar.
Við munum því nota styrkinn til kaupa á búnaði til kennslu og sköpunar sem fylgir ekki hefðbundnu skólastarfi

Meðfylgjandi er frétt um styrkafhendinguna

Styrkir Norðurorku til samfélagsverkefna 2023 | Norðurorka

Signý Valdimarsdóttir tekur hér við styrknum fyrir hönd Hlíðarskóla. Eyþór Björnsson, forstjóri hjá Norðurokru, afhendir.

Á hálum ís

Strax eftir hádegismat gærdagsins fóru krakkarnir í rútu sem ferjaði allan hópinn í skautahöllina, en íþróttatími dagsins fór þar fram.

Íþróttatíminn stóð yfir í rúma klukkustund og skemmtu allir sér vel, nemendur jafnt sem starfsfólk. Allir nemendur tóku virkan þátt á svellinu og sýndu flott tilþrif, sérstaklega þeir reynslumeiri, en þó voru nokkrir reynslulitlir sem gáfu þeim reynslumeiri alls ekkert eftir!

Þrettánda-brenna og öðruvísi morgunmatur.

Í dag kvöddum við jólin í enn eitt skiptið og vorum við með brennu í tilefni þess. Strax eftir hina hefðbundnu gæðastund var förinni heitið yfir í Skjaldargarð þar sem brennan fer alla jafna fram og gæðastundin þá framlengd, nema núna utandyra 🙂

Eftir brennuna fóru allir inn í matsal og fengu sér snemmbúin morgunverð sem var auk þess aðeins lengri en vanalega. Í þetta skiptið var boðið upp á ristað brauð með osti og marmelaði og heitt kakó, ásamt þessum hefðbundna morgunverði.

Starfsmenn Hlíðarskóla vona að jólin og áramótin hafi verið þér og þínum ánægjuleg, og vonandi ber árið 2023 margt gott í skauti sér!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Skólaráðsfundur var haldinn 19.desember

Skólaráð Hlíðarskóla kom saman á fundi þann 19.desember og má sjá hér fundargerð.

Yfirferð yfir árið 2022

Árið 2022 gekk afskaplega vel hjá okkur og erum við stolt af því starfi sem hefur farið hér fram. Útskrifuðust 12 nemendur um vorið og innskrifuðust 8 nýir nemendur í byrjun haustannar sem er óvenju mikið. Það tók tíma að fá jafnvægi  í hópana sem er ekkert óalgengt þegar nemendahópurinn breytist svona mikið.

Það voru mannabreytingar hjá okkur fyrir haustönnina. Bibbi fór á árs námsleyfi og tók Þráinn við bekknum hans og hefur það gengið vel. Einnig hættu María Hensley fjölskylduráðgjafi og Guðrún uppeldisfulltrúi. Í þeirra stað kom Signý sem fjölskylduráðgjafi og Bjarnhéðinn í stöðu uppeldisfulltrúa. Þau hafa komið sterk inn í hópinn og staðið sig vel. Þráinn var í 60% stöðu hjá okkur en þegar hann fór í stöðuna hans bibba að þá var hún laus. Í þá stöðu var ráðin Fjóla og hefur hún einnig komið mjög sterk inn. Óskað var eftir að 60% staðan yrði hækkuð í 80-100% og fékkst vilyrði fyrir því en þegar var komið að því að þá fékkst ekki aukning á núverandi prósentu.

Haustönnin hefur verið óvenjuleg að því leiti að mikil forföll hafa verið í starfsmannahópnum sem hefur reynt mikið á hópinn og samhliða því að vera með marga nýja nemendur að þá er óhætt að segja að haustið er búið að reyna á starfshópinn. Með bjartsýni að vopni fer starfshópurinn fullur eldmóðs inn í árið 2023.

Skipulagsmál á svæðinu.

Skólinn hefur verið að berjast fyrir bættri aðstöðu umhverfis skólann. Nemendur hafa látið í sér heyra á bekkjarfundum og er þetta líklega það mál sem oftast er rætt á þeim fundum. Nemendur krefjast úrbóta á lóðinni þar sem þeim finnst framboð á afþreyingu fremur fátæklegt. Skólastjóri hefur óskað eftir að bærinn bæti útiaðstöðu í kringum skólann. Boðaði skólastjóri Björgvin hjá fasteignum til að koma og skoða aðstæður og voru hugmyndir um breytingar bornar undir hann. Það sem kom út úr þeirri heimsókn var að hleðsluveggur í kringum Vík var lagaður fyrir 40ára afmæli Hlíðarskóla ásamt því að töluvert var málað inn í Vík. Áætlað er að klára að laga hleðsluvegg í kringum Skjöld á vormánuðum ásamt því að rífa upp hellur og laga stétt við Skjöld. Körfubolti er vinsæll í frímínútum en karfan okkar bilaði og fengum við nýja körfu til bráðabyrgða. Er áætlað að skólinn fái tvær nýjar körfur í vor.

Skólastjóri er að vinna í að svæðið fyrir norðan vík verði lagað. Þar er flötur sem er notaður til fótboltaiðkunar en er í mjög lélegu ástandi. Er ósk skólans og nemenda hans að því svæði verði breytt í eitthvað sem nýtist betur. Einnig hefur skólinn óskað eftir að fá að byggja opið útihús sem yrði staðsett í skógreitnum vestan við Skjöld. Einnig hefur skólastjóri bent á að ástandið á veginum niður að Skjaldavík sé mjög slæmt. Vegurinn er malarvegur með stórum og miklum holum í sem fari illa með bíla starfsmanna og þeirra foreldra sem mæti í foreldrasamtöl. Einnig auki þetta hættuna fyrir skólabílinn sem sér um að keyra nemendur.

Hótelið í nágrenni við skólann lokaði á haustmánuðum. Skólastjóri óskaði eftir að lóðamörk yrðu skjalfest áður en nýr aðili kemur á svæðið og tekur við húsinu. Óskaði skólastjóri eftir því að skólinn fengi aftur blettinn þar sem gróðurhúsið var en hann var áður hluti af skólalóðinni. Einnig var óskað eftir því að skólinn fengi brekkuna  fyrir neðan íbúðarhúsið og að skólinn fengi aftur allan skógreitinn vestan við Skjöld en nágrannar skólans höfðu nýtt hluta af því svæði. Var farið fram á að lóðamörkin yrðu formlega skráð og varveitt þannig að enginn vafi væri hvar lóðamörkin myndu liggja.
Nemendur sem sitja í skólaráði taka undir orð skólastjóra og nefna að hægt sé að setja gerfigrasvöll eða leik-kastala norðan megin við Vík. Þeir segja mjög mikilvægt umgjörð í kringum skólann verði bætt.

Rekstur skólans árið 2022 og útlitið fyrir næsta fjárhagsár.

Rekstur skólans fyrir árið 2022 hefur verið nokkuð snúinn. Verðbólguaukning hefur verið í töluverðan tíma með þeim afleiðingum að allt hefur hækkað. Mikil forföll innan starfshópsins hefur einnig gert það að verkum að gæta hefur þurft aðhalds í öðrum liðum. Allir í starfshópnum hafa þurft að leggjast á eitt svo hlutirnir hafi getað gengið upp og er það merki mikillar samvinnu og samheldni.

Ekki er komin úthlutun fyrir nýtt fjárhagsár en skólastjóri hefur ítrekað mikilvægi þess að 60% staðan sem kom í janúar 2022 að hún verði aukin upp í 100%.

Foreldrafélag.

Foreldrafélag var stofnað í Hlíðarskóla í október. Ákveðið var að gera nefndir fyrir eldri og yngri deild og var markmiðið að vera með að lágmarki einn viðburð á hvorri önn í báðum deildum. Eldri deildin hélt bíó kvöld og pantaði pizzu og yngri deildin var með málun á piparkökuhúsum. Einnig hafði foreldrafélag yngri deildar búið til flottan ratleik en það féll niður út af veðri og lélegri þátttöku.

Það er von okkar í skólanum að foreldrafélagið eigi eftir að eflast og að foreldrar styðji vel við félagið og taki þátt í viðburðum sem það stendur fyrir.

Önnur mál

Engin.

Mætt: Valdimar skólastjóri, Ólafur kennari, Anton uppeldisfulltrúi, Lilja fyrir hönd foreldra, Hilmar og Héðinn fyrir hönd nemenda.

Aðalheiður boðaði forföll en hún situr í skólaráði fyrir aðila í nærumhverfi.

Næsti skólaráðsfundur verður haldinn 20.mars og verður opinn öllum.

Jólaföndur og eldgos í Skjaldarvík!

Núna er desember genginn í garð og flestir annað hvort komnir (eða alveg að komast) í jólaskap.

Miðvikudagurinn 30. nóvember var með óhefðbundnu sniði. Dagurinn hófst með gæðastund í kennslustofunum eins og vanalega og í kjölfarið byrjaði svokölluð Gong-lestrarstund. Þá fer starfsmaður skólans og spilar ljúfa tóna á Gong sem markar þá upphaf þessarar óvenjulegu lestrarstundar, en þá mega nemendur vera hvar sem er og hvernig sem er innan veggja skólans og lesa í 15 mínútur.

Strax eftir morgunmat tóku allir nemendur skólans sig til og skáru pizza deig í ræmur, fylltu ræmurnar með kanil og vöfðu þær síðan utan um prik, og væru ræmurnar loks grillaðar í eldstæðinu vestan við hús.

Eftir frímínútur fóru nemendur í þá valtíma sem þeir völdu sér vikunni áður, en eftir hádegismat var komið að hápunkti dagsins. Skólinn fylltist þá af mömmum, pöbbum, öfum, ömmum, frændum og frænkum sem áttu góða stund með börnunum við alls kyns jólaföndur. Boðið var upp á að skreyta piparkökur, búa til jólatrés-skraut, smíða sér snjókalla, föndra jólakort og föndrað jólasveina á þvottaklemmur!

Krakkarnir fóru svo með vinum og vandamönnum heim, sátt eftir vel heppnaðan dag!

Í öðrum fréttum er það helst að það hófst eldgos í Skjaldarvík! Aðeins var um vísindaverkefni yngsta stigs að ræða og entust umrædd eldgos ekki nema í stutta stund og sluppu allir ómeiddir frá þeim. Það má með sanni segja að eldgosin (og eldfjöllin sem að yngstu strákarnir unnu hörðum höndum við að búa til), hafi slegið rækilega í gegn!

Jólagluggamálun

í síðustu viku fóru nemendur úr Hlíðarskóla tvær ferðir, á mánudegi og fimmtudegi, í Pennann Eymundsson til að mála glugga þar. Síðustu 14-15 ár hefur Hlíðarskóli verið í samstarfi við Pennan Eymundsson að skreyta glugga þar fyrir jólin og hefur Ólafur Sveinsson, mynd- og handmenntakennari Hlíðarskóla, staðið fyrir og stýrt verkefninu. Í ár urðu íslensku jólasveinarnir fyrir valinu og fengu Gríla og Leppalúði að fylgja með, ásamt jólakettinum. Við gerð þeirra var horft til ýmissa fyrri túlkana á þeim félögum, svo sem MS jólasveina og annara. Allar myndirnar eru gerðar fríhendis útí skóla á maskínupappír. Myndirnar voru svo límdar utan á gluggana og málaðar/litaðar með Posca-pennum á gluggana, teknar í gegn á glerið.

Þeir Nemendur sem unni verkið eru:

  • Axel Dusan Þorgeirsson                                 
  • Aron Máni Björnsson                                  
  • Ágúst Hrafn Árnason                                    
  • Egill Ingimar Þórarinsson                      
  • Héðinn Dagur Bjarnason                           
  • Logi Már Ragnarsson
  • Sigurður Elí Ólafsson

Aðrir höfundar mynda:

  • Auðunn Frans Auðunsson
  • Hartmann Logi Stefaníuson
  • Þórhallur Darri Sigurjónsson
  • Matthías Óli Hinriksson

Við vonum að sem flestir fari og sjái skreytingarnar í Pennanum.

Að lokum læt ég fylgja kveðju af því plaggi sem fylgir með myndunum.

Takk fyrir okkur. Megið þið njóta skammdegisins og hátíðana er þær upp renna.

Ólafur Sveinsson
1 2 3 4 5 6 12