Dagur íslenskrar tungu
Í dag var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur víða um land. Hér í skólanum ákváðum við að tengja daginn sérstaklega við þá Jón Stefán og Ármann Sveinssyni, gjarnan þekktir sem Nonni og Manni. Var það gert vegna þess að Nonni fæddist einmitt 16. nóvember árið 1857, og líka vegna þess að núna eru 100 ár liðin frá því að fyrsta bókin eftir hann var þýdd á íslensku.
Dagurinn var stútfullur af dagskrá. Hann byrjaði með gæðastund eins og venjan er, en klukkan 8:30 safnaðist allur skólinn saman í matsalnum til að hlýða á hana Rögnu frá Minjasafninu sem sagði okkur ýmislegt um sögu þeirra Nonna og Manna, auk þess sem hún sýndi okkur m.a. myndir af Nonna, skólafélögum hans og af Akureyri forðum daga.
Að loknum morgunmat var skipt liði. Helmingur skólans, eða hópur A, fór á Möðruvelli og Skipalón á meðan að hinn helmingurinn, hópur B, horfði á fyrsta hluta af Nonna og Manna sjónvarpsþáttunum. Þegar fyrri frímínútum lauk fór hópur B svo á Möðruvelli á meðan að hópur A horfði á fyrsta þátt í matsalnum.
Því næst tók hádegismaturinn við. Í dag var boðið upp á Schnitzel sem vakti mikla lukku meðal nemenda og höfðu sumir orð á því að kjötið væri sérstaklega mjúkt og ljúffengt. Boðið var upp á hrásalat, kartöflur og brúna sósu með. Orðið „schnitzel“ á einmitt uppruna sinn að rekja til þýsku, og það sama má segja um þættina sem við horfðum á í dag, en þeir voru upprunalega teknir upp á þýsku! Það var þó einungis skemmtileg tilviljun að Schnitzel hafi verið í boði í dag.
Eftir hádegismat og frímínútur horfði hópur B á þátt nr. 2 af þeim Nonna og Manna, á meðan að hópur A fékk það verðuga verkefni að mála heimskortið upp á vegg í matsalnum. Hópur B fékk svo að merkja alla þá staði sem Nonni heimsótti á ævi sinni og kortleggja för hans með snæri. Voru margir mjög hissa að nú ættu þeir að mála (hvert) skrapp’ann á vegginn, enda tækifæri sem gefst ekki oft.
Það má alveg segja að dagurinn hafi heppnast alveg einstaklega vel og voru nemendur, jafnt sem starfsfólk, hæstánægt með hann.